Gamanmyndahátíð Flateyrar fær kaldar kveðjur frá Ísafjarðarbæ

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Guðmundur Gunnarsson afhendir Óskari Jónassyni heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til gamanmynda.

Gamanmyndahátíð Flateyrar var eitt af viðfangsefnum fundar Atvinnu- og menningarmálanefndar Ísafjarðarbæjar 28. nóvember síðastliðinn. Þar óskaði Eyþór Jóvinsson eftir langtímastuðningi við hátíðina en 9. október sendi hann bréf til bæjarritara Ísafjarðarbæjar þess efnis og þar sem Eyþór segir að tap af hátíðinni í ár hafi verið 400.000 en reynt hefur verið að reka hátíðina á núlli. „Tekjur hátíðarinnar voru 1,410,000 kr en útgjöld 1,770,000 kr,“ skrifar Eyþór til Þórdísar og útskýrir ennfremur: „Það skýrist af tvennu, við fegnum ekki styrk frá Ísafjarðarbæ, líkt og undanfarin ár eins og við reiknuðum með. Í annan stað urðum við fyrir tjóni á flutningabílnum sem við leigðum yfir helgina.“

Í tölvupóstinum til Þórdísar gerir Eyþór grein fyrir því að hátíðin hafi stækkað jafnt og þétt undanfarin ár og samhliða hækki kostnaður og meiri tími fari í undirbúning. Hann og Ársæll, annar aðstandandi hátíðarinnar hafa unnið um 10-12 vikur að undirbúningi ár hvert og án þess að reikna sér laun. „Þegar það stefnir í það að við þurfum að borga með hátíðinni í ár sem og að gefa alla okkar vinnu, þá verður það því miður að teljast hæpið að hátíðin verði haldin aftur á næsta ári. Því langaði mig að leita til þín varðandi ráðleggingar að koma mér í réttan farveg varðandi samning við Ísafjarðarbæ, þannig að bærinn verði þáttakandi að hátíðinni, með samningin til 3-5 ára, líkt og þekkist með aðra sambærilega menningarviðburði líkt og Aldrei og fór ég suður og Act alone,“ skrifar Eyþór til Þórdísar.

Þórdís Sif bæjarritari svaraði ekki þessum tölvupósti fyrr en 8. nóvember þegar Eyþór sendi ítrekun með afriti á formann bæjarráðs og bæjarstjóra. Þá bendir hún á að hún hafi áður viljað beina honum að styrkjum til menningarmála og að sögn Eyþórs sótti hann um þar en fékk ekki styrk en Ísafjarðarbæ láðist að láta vita af því. Þegar Eyþór fékk loksins svör eftir nokkra tölvupósta var sagt að Gamanmyndahátíðin hefði ekki hlotið styrk vegna þess að lokaskýrsla hafði ekki borist. Að þess væri krafist hafði Eyþór ekki vitneskju um. Þórdís vísaði beiðni Eyþórs um langtímastyrk til bæjarráðs þar sem málið var tekið fyrir á fundi 12. nóvember. Þaðan var því vísað til vinnslu í Atvinnu- og menningarmálanefnd sem hafnaði beiðni um samning við Ísafjarðarbæ. Bænum láðist einnig að segja aðstandendum Gamanmyndahátíðar Flateyrar frá því en Eyþór las það í frétt á BB í gær, þar sem sagt var frá niðurstöðum fundar Atvinnu- og menningarmálanefndar.

Í rökstuðningi fyrir höfnun á langtíma samningi við Gamanmyndahátíðina var sagt: „Slíkir samningar eru ætlaðir til að efla hátíðir sem þegar hafa fest sig í sessi í sveitarfélaginu og sýnt fram á mikilvægi sitt í samfélagslegu og menningarlegu tilliti. Atvinnu- og menningarmálanefnd óskar aðstandendum hátíðarinnar velfarnaðar og hvetur áfram til góðra verka.“

Frá sýningunni Hellisbúinn á síðustu Gamanmyndahátíð.
Villi naglbítur og Kommi trommari skemmta gestum gamanmyndahátíðar.
Færri fengu sæti en vildu á barnasýningunni hjá Villa vísindamanni á Gamanmyndahátíðinni.
Börnin skemmtu sér vel með Villa vísindamanni og á öðrum barnasýningum á Gamanmyndahátíðinni.

BB hafði samband við Eyþór sem telur sig fá kaldar kveðjur frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. „Ekki nóg með það að Gamanmyndahátíð Flateyrar er ekki talin hafa fest sig í sessi, þrátt fyrir að vera komin inn í sitt fjórða starfsár. Þá er hátíðin hvorki mikilvæg samfélaginu né skiptir hún nokkru máli í menningarlífi Vestfirðinga að áliti nefndarinnar,“ segir Eyþór og er nokkuð brugðið. Tæplega 2000 gestir hafa sótt hátíðina frá upphafi og nærri hundrað gamanmyndir voru sýndar núna á síðustu Gamanmyndahátíð. Fyrir utan svo uppistand, gjörninga, leiksýningar, barnasýningar, vísindasýningar, tónleikar og annað sem í boði var á Flateyri í tengslum við hátíðina þessa helgi. „En það þykir víst ekki nægilega menningarlegt fyrir menningamálanefnd Ísafjarðar,“ segir Eyþór.

„Skipuleggjendur, sjálfboðaliðar og heimamenn á Flateyri hafa lagt út þúsundir vinnustunda, fjármagn, aðstöðu og annað til að gera þessa hátíð að veruleika undafarin 3 ár. Þegar sá hópur mætir öðru eins skilningsleysi og áhugaleysi Bæjarstjórnar Ísafjarðar þá fallast mönnum auðvitað hendur og hafa lítinn áhuga á að eyða tíma sínum og fjármunum í að byggja hátíðina upp áfram. Því ekki nóg með það að Ísafjarðarbær vill ekki setja svo mikið sem nokkra þúsundkalla í hátíðina þá rökstyður bærinn þá ákvörðun með slíkum sleggjum að erfitt mun reynast að nálgast fjármagn með öðrum leiðum. Hver vill styrkja hátíð sem hefur engin menningarleg eða samfélagslegáhrif. Hátíð sem hefur nú vanhæfni sína uppáskrifaða frá Ísafjarðarbæ,“ segir Eyþór og er að vonum sár enda hefur hátíðin skipað sér fastan sess hjá þeim fjölmörgu sem hana sækja.

Ársæll og Eyþór sóttu um í Uppbygginarsjóð fyrir hátíðina á næsta ári en sjóðurinn hefur staðið þétt við bakið á þeim frá upphafi. Eyþór segir það samt ljóst að þeir þurfi að endurskoða alla hátíðina, hún hafi vaxið það mikið undanfarin 3 ár. „Það er heldur ekkert náttúrulögmál að hátíðin verði áfram á Flateyri. Kannski er hægt að leita stuðnings til annara sveitafélaga sem eru tilbúin að styðja við bakið á menningu og listum. Mögulega verður Gamanmyndahátíð Súðavíkur haldin á næsta ári. Það er líka gott félagsheimili í Bolungarvík og skemmtilegir bræðslutankar í Djúpavík. Þá hefur það einnig gefist vel að halda kvikmyndahátíðir í Bíó Paradís á Hverfisgötunni. Það verður kannski næsta heimili Gamanmyndahátíð Flateyrar,“ segir Eyþór að lokum í samtali við BB.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA