Frétt frá aðalfundi Samtaka Selabænda

Aðalfundur Samtaka Selabænda haldinn 10.nóvember 2018, vill koma á framfæri þeim veruleika, að bændur eiga lítinn sem engan þátt í þeirri fækkun sela við landið, sem hefur orðið til þess að Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að landselur verði settur á válista.

Fækkunin á sér þær ástæður að 16. ágúst 1979 setti sjávarútvegsráðherra, að frumkvæði fisksölufyrirtækja (Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild SÍS (nú Íslenskar sjávarafurðir hf.), Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Coldwater Seafood Corporation, Iceland Seafood Corporation og Föroya Fiskasöla í eitt ár (1984).) á fót svokallaða Hringormanefnd. Þessari nefnd var sett það hlutverk að útrýma sel vegna þess að hann er millihýsill á hringormi. Var í þessu skyni greitt fyrir hvern drepinn sel og það mönnum þó þeir ættu hvergi rétti til veiða né hefðu leyfi til slíks. Fóru þá til veiða allmargir veiðiþjófar, óspart hvattir til óhæfunnar. Enda greiddi Hringormanefnd fyrir og skeytti hvorki um skömm né heiður og lítt um hvar veitt var.

Að lokum tókst að mestu að stöðva óhæfuna en þá var stærri bátum veitt leyfi til grásleppuveiða. Við þá breytingu fóru þessir stærri bátar að sækja lengra og nær selalátrunum. Það hafði í för með sér að fullorðinn selur fórst í grásleppunetum unnvörpum og selastofninn hrundi nær alveg á stórum svæðum við Húnaflóa, á Breiðafirði og fyrir Mýrum. Bændur eru fyrir allmörgum árum hættir að veiða sel, nema örfáir fá sér kóp til að sæta sér í munni. Ef ætlunin er að fjölga í stofninum þá er ekki önnur leið en að friða stór svæði fyrir grásleppunetum, og koma í veg fyrir tilefniaslaust dráp sela við ósa laxveiðiáa.

Einnig ályktar fundurinn um ótrúlegan yfirgang Fiskistofu, að ætla að taka yfir hlunnindi bænda, sem eru klóþangsöflun sem er á þurrlendi sjávarjarða, og mótmælum við alfarið álagningu auðlindagjalds og þeirri aðför að hlunnindum jarða einnig því að Hafrannsókn gefi leyfi til öflunar þörunga á grunnsævi án þess að landeigendur fái þar nokkru um ráðið. Slíkt er yfirgangur sem á skylt við aðfarir Hringomanefndar á sínum tíma.

Stjórn Samtaka Selabænda.
Pétur Guðmundsson
Ásgeir Gunnar Jónsson
Kristinn Nikulásson

DEILA