Fjórðungssamband Vestfirðinga fær styrk

Fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga við afhendingu styrkja ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúum í valnefnd. Mynd:Stjórnarráðið.

Fjórðungssamband Vestfirðinga fær styrk til að setja á fót nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar í þéttbýliskjörnum þar sem slíkt er ekki til staðar. Slíkar miðstöðvar verði vettvangur þjónustu, sköpunar og frumkvöðlastarfs og að þeim standi sveitarfélög, landshlutasamtök, fyrirtæki og einstaklingar. Styrkurinn nýtist til að standa undir rekstri þessara stöðva og til starfs verkefnisstjóra. Verkefnið er styrkt um 15.000.000 kr.

Það er  Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sem hefur  undirritað samninga við landshlutasamtök sveitarfélaga um níu verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 120 milljónum króna úthlutað fyrir árið 2018 til sértækra verkefna á  sóknaráætlunarsvæðum. Alls bárust 26 umsóknir um styrki að fjárhæð tæpar 441 m.kr. Níu umsóknir fengu styrk þar af fékk Fjórðungssamband Vestfirðinga einn.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefndinni sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður.

DEILA