Fjölmargir sem grúskuðu í rökkrinu á bókasafninu

Safnahúsið á Ísafirði.

Í tengslum við bæjarhátíðina Veturnætur hefur Bókasafnið Ísafirði undanfarin ár staðið fyrir bókamarkaði sem kallast „Grúskarar í rökkrinu.“ Markaðurinn hefur verið mjög vinsæll og svo var einnig í ár. „Við vitum af því að það er áhugasamt fólk útí bæ sem bíður spennt eftir bókamarkaðinum, sem hefur verið árviss viðburður á Veturnóttum síðan 2013. Alls konar fólk er að mæta og margir oftar en einu sinni, enda bætum við alltaf við bókum þegar „göt“ eru farin að myndast,“ sagði Pernilla Rein þegar BB hafði samband.

„Einhverjir eru að safna bókum og leita að ákveðnum titlum. Aðra vantar titla inn í bókaflokk og vilja kanna hvað við eigum. Enn aðrir eru að leita að ódýrum skáldsögum og kiljum. Við erum alltaf með blöndu af gjafabókum og grisjuðum bókum úr safninu. Hvað er í boði hverju sinni fer einfaldlega eftir gjöfum sem við fáum og eftir því hvað við erum sjálf að losa okkur við. Ef það er mikið af einhverju þá höfum stundum reynt að búa til skemmtilegt þema. Að þessu sinni var mikið af kiljum, ekki síst spennusögum.“

Hún sagði einnig að vestfirska hornið væri fastur líður á bókamarkaðnum. Þar mætti finna allskonar fróðleik um Vestfirði. Svo hafi verið hægt að kaupa til dæmis ævisögur, ferðahandbækur, bækur um hönnun og list, erlendar kiljur, ýmis fræði og margt margt fleira. Yfirleitt kostuðu bækurnar 200 krónur stykkið nema þær væru fágæti, þá voru þær aðeins dýrari. Ferðabækurnar seldust ágætlega þó þær væru ekki nýlegar og sama átti við um sumar myndlistabækurnar, sem voru margar hverjar mjög vandaðar. Þetta er spennandi viðburður fyrir grúskara og auðskilið af hverju margir bíða eftir þessu á hverju hausti.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA