Faldbúningurinn fær nýtt líf í myndum Freydísar

Ætli dulúð Arnarfjarðar og listfengin frá Kirkjubóli komi þarna saman í myndum Freydísar?

Unnendur fallegra mynda hafa kannski rekið augun í jólakortin og myndirnar sem hún Freydís Kristjánsdóttir gerir. Mótífin eru oftar en ekki ættuð á einhvern hátt úr þjóðsögunum. Eða í það minnsta er hægt að ímynda sér það þegar þjóðbúningaklæddar konur svífa um loftin á þessum myndum. Freydís er uppalin í Hafnarfirði en er ættuð frá Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði. Hún er dóttir Kristjáns Bersa, sonar Ólafs Þ Kristjánssonar sem var elsti bróðir Jóhönnu, Guðmundar Inga og Halldórs, systkinanna frá Kirkjubóli.

Freydís segir í samtali við BB að hún hafi þó ekki verið mikið á Kirkjubóli í gegnum tíðina en þó fengið nasasjón af heimilisbragnum. „Mér finnst ég þó þekkja þarna eitthvað til því pabbi var mikið að segja mér sögur frá því þegar hann var þarna í sveit,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið mun meira í Arnarfirðinum á sumrin sem barn og unglingur, því þaðan er hún einnig ættuð.

„Ég hef starfað við myndlýsingar samfleytt frá árinu 1991. Hef meðal annars teiknað mikið af kennslu og fræðsluefni og þar af leiðandi þurft að sökkva mér í ýmsan fróðleik. Sem er engin kvöð, heldur ánægjulegur fylgifiskur minnar vinnu. Ég hef haft sérstakan áhuga á þjóðtrú og þjóðsögum, horfnum starfsháttum og öllu tengdu fortíðinni og kynnt mér búningasöguna vel,“ segfir Freydís.

„Fyrir nokkrum árum fór ég að velta fyrir mér að gera jólakort, og þá kom það eiginlega af sjálfu sér að nota þjóðbúninginn íslenska, því mér finnst hann svo jólalegur. Sérstaklega gamli faldbúningurinn. Til að þetta yrði ekki eins og hver önnur búningateikning, þá fór ég að leika mér með hreyfingu, skella inn smá pilsaþyt og gleði og fara kannski dálítið frjálslega með litina. Samanber hvíti faldbúningurinn. Það góða við að hafa ekkert sérstakt annað á myndunum sem minnir á jólin er að kortin nýtast við ýmis önnur tilefni. T.d. sem fermingarkort, útskriftarkort eða bara hvað sem er.“

Síðastliðið haust var Freydís beðin um að gera kort sem minnti aðeins meira á jólin. Þá bjó hún til kort með jólakettinum og huldusögu og það er alveg á hreinu að fyrir fólk með ímyndunaraflið í lagi þá er vel hægt að sökkva inn í sögurnar sem Freydís segir á myndunum sínum.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA