Fáir námsmöguleikar í boði eftir að fólk lýkur starfsbraut

MÍ býður upp á fjögurra nám á starfsbraut en lítið er í boði eftir að því lýkur.

Verkefnahópi sem ætlað er að kortleggja og koma með tillögur um úrbætur er varðar menntun, atvinnu- og tómstundarmöguleika nemenda sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla hélt sinn fyrsta fund á dögunum. Hópurinn er skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra og er honum ætlað að afla gagna og leggja mat á þörf fyrir úrræði til úrbóta og skila tillögum til ráðherra.

„Ég bind vonir við að þessi breiða nálgun á málefnið muni skila tillögum sem auðvelda okkur að samræma þjónustu, bæta upplýsingaflæði og fjölga tækifærum – til hagsbóta fyrir nemendur, aðstandendur og atvinnulífið,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í hópnum eru fulltrúar frá Landssamtökunum Þorskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og velferðarráðuneytinu auk aðstandenda nemenda og sérfræðinga mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Að auki mun hópurinn í sinni vinnu kalla eftir sjónarmiðum ýmissa hagsmunaaðila. Ráðgert er að verkefnahópurinn ljúki störfum næsta vor.

Í Menntaskólanum á Ísafirði er starfsbraut með skilgreindan námstíma upp á fjögur ár. Sumir nemendur halda þá áfram í annað nám í skólanum en fyrir flesta starfsbrautarnemendur er ekki meira formlegt nám í boði hér á svæðinu. Þó má nefna að Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður á hverju ári upp á námskeið af ýmsu tagi sem nýtast flestum sem útskrifast hafa af starfsbraut. Eina formlega námið eftir útskrift er starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun í Háskóla Íslands, en það nám þarf að sækja til Reykjavíkur.

Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri við MÍ segir í samtali við BB að það sé nokkuð misjafnt hér hvað nemendur taka sér fyrir hendur að loknu námi á starfsbraut og ekki hafi verið gerðar neinar rannsóknir á því. Sumir fara út á vinnumarkaðinn en margir notfæra sér úrræði á vegum sveitarfélaganna.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA