Eiginfjárhlutfall 42% í sjávarútvegi

Eiginfjárhlutfall í sjávarútvegi í lok árs 2017 var 42% og nam 276 milljörðum króna. Fyrir aðeins 9 árum, í kjölfar hrunsins  var eigið fé sjávarútvegsins ekkert. Á síðasta ári jukust eignir sjávarútvegsins um 6,2% frá 2016 og skuldir lækkuðu um 6,9%. Fjárfestingar í varanlegum eignum hækkuðu um 10%. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Hagstofu Íslands um hag veiða og vinnslu fyrir árið 2017.

Vátryggingarverð fiskiskipaflotans var 153 milljarðar króna í lok ársins og jókst um 19 milljarða króna frá fyrra ári. Meðalaldur skipanna er 27 ár.

Gengi krónunnar lækkaði um 0,7% frá upphafi árs til loka þess samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands. Töluverðar sveiflur voru innan ársins og munaði 16% á hæsta og lægsta skráðu gildi gengisvísitölunnar. Gengi krónunnar lækkaði um 4,7% gagnvart evrunni á árinu en hækkaði um 8% gagnvart bandaríkjadal.

Hagstofan segir að verð á erlendum mörkuðum hafi lækkað um 6,7% í íslenskum krónum. Fjármagnskostnaður sjávarútvegsins var nánast óbreyttur milli ára, 12.751 milljón króna árið 2016 og 12.386 milljónir króna árið 2017. Afskriftir jukust verulega, voru 9,6 milljarðar króna 2016 en 13,7 milljarðar króna 2017 og gætir þar áhrifa verulegra fjárfestinga í nýjum skipum.

Útflutningstekjur sjávarútvegsins lækkuðu verulega. Þær voru 220 milljarðar króna 2016 en fóru niður í 182 milljarða króna í fyrra. Framlegðin (EBITDA) lækkaði úr 56  milljörðum króna í 39 milljarða króna.  Mælt sem hlutfall af tekjum lækkaði það úr 24,2% í 21,1%.

Hagstofan upplýsir einnig um veiðigjald sundurliðað eftir fiskveiðiárum. Fyrir 2014/15 var veiðigjaldið 7,7 milljarðar króna, 6,9 milljarðar króna árið eftir 2015/16 og aðeins 4,6 milljarðar króna 2016/17.

DEILA