Efnahagslegur ávinningur af friðlýstum svæðum

Glæra sem sýnir útgjöld hvers ferðamanns að jafnaði pr dag innan 45 km frá friðlýstu svæði. Umhverfisráðuneytið.
Jukka Siltanen kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á Umhverfisþingi.

Á umhverfisþingi, sem haldið var í gær, var kynnt rannsóknin var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, um efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á Ísland. Segir í tilkynningu ráðuneytisins að  á  árinu 2017 hafi beinn efnahagslegur ávinningur 12 svæða og nærsamfélaga þeirra verið um 10 milljarðar króna og að ávinningurinn fyrir þjóðarbúið í heild hafi verið 33,5 milljarðar króna. Þetta eru niðurstöður fyrstu rannsóknar sem gerð hefur verið á landsvísu á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða á Íslandi.

Samkvæmt rannsókninni eyða ferðamenn árlega samtals 10 milljörðum íslenskra króna innan þeirra svæða sem rannsökuð voru eða í næsta nágrenni þeirra. Þetta skapar um 1.800 störf á umræddum stöðum eða um 1.500 full stöðugildi. Um er að ræða bein störf í ferðaþjónustu, svo sem við gistingu, skipulagðar ferðir, akstur og veitingaþjónustu. 45% af eyðslu ferðafólks var inni á friðlýstu svæðunum eða í næsta nágrenni þeirra.

Að meðaltali var heildareyðsla ferðamanns á dag 21.865 kr og þar af var 10.187 kr eytt innan 45 km frá svæði sem var heimsótt. Sé litið á 12 friðlýst svæði sem voru rannsökuð er niðurstaða rannsóknarinnar að heildareyðsla ferðamanns vegna þeirra hafi verið 12.683 kr á dag, þar af voru 5.625 kr sem ferðamaðurinn ráðstafaði innan 45 km frá friðlýsta svæðinu sem var heimsótt.

Þessi 12 svæði voru: Ásbyrgi/Jökulsárgljúfur, Laki og Skaftafell, sem öll eru í Vatnajökulsþjóðgarði, Þingvellir, Dynjandi, Hraunfossar, Landmannalaugar, Mývatn, Þórsmörk, Hengifoss og Hvítserkur. Niðurstöður frá áður birtri rannsókn á Snæfellsjökulsþjóðgarði voru enn fremur uppfærðar, þannig að heildarfjöldi svæðanna varð 12. Tvö svæðin eru ekki friðlýst en voru tekin með í rannsóknina til að ná að fanga ólík svæði vítt og breitt um landið.

 

Dynjandi í Arnarfirði er eitt af svæðunum og eina svæðið sem er á Vestfjörðum. Heildareyðslan pr dag fyrir hvern ferðamann var um 7.000 kr sem er það þriðja lægast af stöðunum 12. Þar af fóru um 5.000 kr í ferðakostnað, eldsneyti og leiðsögn. Útgjöldin eru einnig reiknuð greind fyrir viðkomandi friðlýst svæði sérstaklega og er þá átt við kostnað sem fellur til innan 45 km frá friðlýsta svæðinu.

Mynd af stöplaritinu fyrir það sýnir að um 3.500 kr eða um helmingur heildarútgjaldanna er skrifaður á svæðið. Þrjú svæði skera sig úr hvað útgjöldin varðar. Það eru Landmannalaugar, Laki og Skaftafell.

Fram kemur í rannsókninni að 1,5 starf er við Dynjanda og að efnahagsleg umsvif séu 295 milljónir króna, sem jafngildir tíföld útgjöldin við Dynjanda. En að meðaltali yfir alla 12 staðina eru umsvifin tuttugu og þrisvar sinnum meiri en tilkostnaður.

DEILA