Edinborg: opin bók í dag kl 4

Opin bók er árlegur bókmenntaviðburður í Edinborgarhúsinu þar sem rithöfundar koma fram og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og smákökur undir lestrinum. Rithöfundar ársins eru Auður Ava Ólafsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl, Finnbogi Hermannsson,Halldóra Thoroddsen, Jón Jónsson og Rúnar Helgi Vignisson.

Auður Ava Ólafsdóttir fjallar um stærstu spurningar mannsins, um lífið, dauðann og sjálfa ástina sem öllu skiptir, í sinni fimmtu skáldsögu, Ör. Auður Ava hefur skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og er textahöfundur popphljómsveitarinnar Milkywhale. Hún er margverðlaunuð fyrir skáldsögur sínar sem hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál. Ungfrú Ísland. Árið er 1963. Íslendingar eru 177 þúsund og eiga einn Nóbelshöfund. Söguhetja bókar, Hekla, er ung skáldkona sem fædd er á slóðum Laxdælu. Hún heldur til Reykjavíkur með nokkur skáldsagnahandrit í fórum sínum.

 

Eiríkur Örn Norðdahl stendur í fremstu röð íslenskra samtímahöfunda og hafa bækur hans komið út og hlotið margs konar viðurkenningar víða um heim. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hér skoðar hann samtíma okkar með fránum augum nettröllsins Hans Blævar sem allt sér og engum hlífir.

Jón Jónsson er þjóðfræðingur sem býr og starfar norður á Ströndum, síðustu tvö árin hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem hefur höfuðstöðvar á Hólmavík. Jón hefur unnið að margvíslegum rannsóknar-, nýsköpunar- og miðlunarverkefnum. Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi. Sögur af sérkennilegu fólki hafa lengi heillað Íslendinga. Þar á meðal eru fjölbreyttar sagnir um fátækt förufólk sem flakkaði um landið fyrr á öldum.

Finnbogi Hermannsson les úr skáldsögu sinni Undir hrauni sem er ástarsaga og gerist í upphafi síðari heimstyrjaldar. Söguhetjan er Reykjavíkurstúlka sem kynnist þýskum skipbrotsmanni af fragtskipinnu Bahía Blanka sem sökk út af Patreksfirði í janúar 1940 og styrjöld þá hafin.

Halldóra Thoroddsen er fædd árið 1950 í Reykjavík. Katrínarsaga er áttunda bók hennar en áður hefur hún gefið út fjórar ljóðabækur, örsagna- og smásagnasafn og eina skáldsögu. Halldóra hlaut bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2017 fyrir bókin Tvöfalt gler þar sem hún þótti leita á nýjar slóðir hvað varðar efnistök og stíl.

 

Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur sent frá sér skáldsöguna Eftirbátur. Sagan er áttunda skáldverk hans en fyrir sitt síðasta skáldverk, smásagnasafnið Ást í meinum, hlaut hann Menningarverðlaun DV.
Eftirbátur fjallar um auglýsingamanninn Ægi sem leitar að föður sínum eftir að fiskibátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Ægir neitar að trúa því að faðir hans hafi fallið útbyrðis og heldur af stað í leit að honum.

 

 

DEILA