Byggðastofnun: fiskeldi kemur í stað fiskveiða

Byggðastofnun.

Aukning í fiskeldi á Vestfjörðum á árunum 2008 – 2017 kom í veg fyrir að mikill samdráttur í fiskveiðum á sama tíma fækkaði störfum í fjórðungnum.  Þetta kemru fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur á árunum 2008 – 2017 sundurliðað eftir landshlutum. Atvinnutekjur af fiskeldi voru 65 milljónir króna árið 2008 en námu 1075 milljónir króna árið 2017. Á sama árabili drógust atvinnutekjur af fiskveiðum saman úr 3.816 milljónir króna í 2.826 milljónir króna. Samanlagðar tekjur af fiskveiðum og fiskeldi eru nánast þær sömu bæði árum.

Hafa ber í huga að atvinnutekjur jukust um 18% á þessu tímabili. Tekjur af fiskveiðum 2017 hefðu þurft að vera 4.501 milljón króna til þess að vera 18% hærri en árið 2007. Það vantar hins vegar 1.675 milljónir króna upp á að svo hafi orðið. Segja má að fiskeldi hafi brúað 1.000 milljónir króna upp í þann samdrátt í atvinnutekjum.

Athyglisvert er að skipting atvinnutekna af fiskeldinu árið 2017 eftir svæðum á Vestfjörðum eru þannig að 88% eða 946 milljónir króna eru utan Ísafjarðarbæjar og 129 milljónir króna innan Ísafjarðarbæjar.

Atvinnutekjur á Vestfjörðum jukust aðeins um 7,3% frá 2008 til 2017. Mest varð aukningin á Suðurnesjum eða 38%, Suðurlandi 25% og Austurlandi 22%. Reyndar varð samdráttur á Austurlandi  um  3,8% en árið 2008 var síðasta ár framkvæmdanna við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði en þegar það er tekið frá mælist auking upp á 22%.

Atvinnutekjur eftir landshlutum og atvinnugreinum
Byggðastofnun 2018
landssvæði 2008-2017 2016-17 aukning 2008-2017 samdr. 2008-2017
Höfuðborgarsvæðið 17,90% 7,80% ferðaþjónusta
Suðurnes 39,00% 13,00% ferðaþjónusta mannvirkjagerð
Vesturland 12,40% 5,00% ferðaþjónusta fiskvinnsla og veiðar
Vestfirðir 7,30% 2,00% fiskeldi fiskveiðar
Norðurland vestra 6,90% 2,00% fræðslustarfsemi fiskveiðar
Norðurland eystra 17,30% 4,00% ferðaþjónusta fiskveiðar
Austurland 22,00% ferðaþjón,fiskvinnsla mannvirkjagerð
Suðurland 25,00% 7,00% ferðaþjónusta mannvirkjagerð

 

 

Skýrslan byggir á gögnum sem fengin voru frá Hagstofu Íslands sem vann þau úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Um er að ræða sérvinnslu fyrir Byggðastofnun líkt og við vinnslu fyrri skýrslna. Ekki er um opinberlega útgefnar hagtölur að ræða en upplýsingarnar byggja m.a. á gögnum sem eru enn í vinnslu og hafa ekki verið nýtt til opinberrar hagskýrslugerðar af hálfu Hagstofu Íslands. Um er að ræða staðgreiðslutekjur einstaklinga, þ.e. laun og reiknað endurgjald, hér eftir nefndar atvinnutekjur. Þetta eru ekki heildartekjur einstaklinga þar sem upplýsingarnar innihalda ekki greiðslur eins og bætur almannatrygginga, greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðra liði sem ekki teljast vera atvinnutekjur.

DEILA