Bolungarvíkurkaupstaður tekur 55 milljóna króna lán

Bolungarvík. Mynd: Sölvi Sólbergsson.

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar ákvað á síðasta bæjarstjórnarfundi sínum að taka 55 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Bæjarstjóri lagði fram þá bókun, sem samþykkt var af bæjarstjórn, að lánið yrði tekið til 16 ára í samræmi við samþykkta skilmála sem lágu fyrir fundinum. Tekjur sveitarfélagsins standa til tryggingar láninu. Lánið er tekið til að endurfjármagna afborganir sveitarfélagsins og Bolungarvíkurhafnar á árinu 2018.

Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga var samþykkt með fjórum atkvæðum en þrír sátu hjá. Til máls tóku Jón Páll Hreinsson, Katrín Pálsdóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir og Birgir Örn Birgisson. Auk þeirra sátu fundinn Kristján Jón Guðmundsson, Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, Kristín Ósk Jónsdóttir og Helga Jónsdóttir.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA