Bókaútgáfa og bjór eða brjálað stuð á Edinborg?

Brauðið verður örlítið meira fljótandi um helgina en þetta ásamt fleiru fæst hjá Gunnari og Lísbetu í Heimabyggð. Mynd: Edda María Hagalín.

Sumir halda að það sé ekkert að hægt að gera sér til skemmtunnar hér fyrir norðan hníf og gaffal. Og stundum er það þannig. En stundum ekki nógu oft, svo mikið er úrvalið af allskonar viðburðum og dótaríi á Ísafirði og nágrannaþorpunum. Til dæmis núna á laugardaginn, þá geta þau sem eru á Ísafirði eða nenna að taka sér rúnt þangað, farið í útgáfuteiti hjá Eiríki Erni Norðdahl eða bruggðið sér á brjálaða tónleika í Edinborgarhúsinu.

Eiríkur Örn býður til teitis á nýju kaffihúsi Ísfirðinga sem nefnist Heimabyggð. Það er staðsett á Aðalstræti 22b á Ísafirði, þar sem Bræðraborg var áður en hún lokaði, útivistarbúðin Úti og mögulega Langi-Mangi. Hans Blær heitir verkið sem Eiríkur var að gefa út. Það er margslungið. Flókið en þó einfalt. Hræðilegt á vissan hátt en satt. Höfundurinn er meðal fremstu rithöfunda á Íslandi núna, það er bara þannig og ekkert flóknara. Ef fólki leiðast bókmenntir er samt hægt að fara í útgáfuteitið vegna veitinganna. Dokkan verður nefnilega í boði, það eru bestu veigarnar á Vestfjörðum.

Dokkan er líka á krana í Edinborgarhúsinu en á sama tíma og Eiríkur Örn stígur dans í Heimabyggð þá mun hljómsveitin Molina spila tilraunakennt diskópopp með súrrealískum keim í Edinborg. Sveitin gaf nýverið út EP plötuna Dodgy Dealings og nýtt myndband við lagið Forlorn. Í desember 2017 vann hljómsveitin til The Records verðlaunanna og er ný LP plata í bígerð. Hin Amsterdam-bundna hljómsveit vefur saman raftónlist, avant-garade, indie rock og spuna. Óalgeng hljóðfærasamsetning sveitarinnar kallar fram spennu milli forms og spuna, frásagnar og tilrauna, hins raunverulega og hins óþekkta.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA