Beinar siglingar til Evrópu frá Bíldudal

Skálafellið í Bíldudalshöfn. Mynd: Víkingur Gunnarsson.

Í gær kom Skálafell skip Samskipa til Bíldudals í fyrstu beinu millilandasiglingu fyrirtækisins frá Bíldudal til Evrópu. Á hverjum miðvikudegi héðan í frá kemur skip Samskipa til Bíldudals og lestar útflutningsvörur. Frá Bíldudal fer skipið til Reykjavíkur þar sem það er fyllt af vörum og síðan er siglt til Hull og þaðan til meginlands Evrópu. Það verða tvö skip í þessum siglingum og þannig tekst að halda upp vikulegri ferðatíðni.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri var kampakátur þegar bb.is hafði samband við hann, en líklega hafa ekki verið beinar millilandasiglingar frá Bíldudal síðan á dögum Péturs Thorsteinssonar eða í heila öld. „Það er útflutningur á laxaafurðum sem gerir þetta mögulegt“ segir Víkingur. „Við munum senda út í hvert skip um 15 gáma af afurðum og þá er kominn rekstrargrundvöllur fyrir siglingaleiðinni. Það er engin ríkisstyrkur.“  Líklegt að flutt verði einnig út framleiðsla Kalkþörungsverksmiðjunnar og þarna gefest einnig kostur á fiskútflutningi beint á markað í Evrópu.

Skálafellið í Bíldudalshöfn. Mynd: Víkingur Gunnarsson.

 

DEILA