Arnarlax beðinn velvirðingar

Frá því er skýrt á heimasíðu Arnarlax að klúbbur matreiðslumeistara harmi ósanngjarna gagnrýni sem Arnarlax hafi orðið fyrir. Jafnframt er því lýst yfir að fullyrðingar klúbbsins um að greiðslur vegna samstarfssamnings sem gerður var í sumar, hafa ekki borist á réttum tíma, hafi verið á misskilning byggðar  og er Arnarlax beðinn velvirðingar á þeim.

Fréttatilkynning klúbbs matreiðslumeistara:

Klúbbur matreiðslumeistara og Arnarlax hafa náð sáttum í máli sem reis eftir að undirritaður var samstarfssamningur milli kokkalandsliðsins og Arnarlax. Klúbbur matreiðslumeistara, sem heldur utan um verkefni kokkalandsliðsins, hélt félagsfund á dögunum þar sem þessi atburðarrás var rædd og var það vilji fundarmanna að ná sáttum við Arnarlax og ganga báðir aðilar nú sáttir frá borði.

Klúbbur matreiðslumeistara harmar að Arnarlax hafi orðið fyrir ósanngjarnri gagnrýni vegna málsins. Eldislax er notaður alls staðar um allan heim og er fyrsta flokks vara og sem dæmi er sambærileg vara notuð á heimsmeistaramótinu í matreiðslu í Luxemburg og víðar.

Umræðan sem skapaðist í kringum samstarfssamninginn er hins vegar af öðru meiði.

Þá tekur Klúbbur matreiðslumeistara það fram að fullyrðingar klúbbsins um að greiðslur frá Arnarlaxi hafi ekki borist á réttum tíma voru á misskilningi byggðar og er Arnarlax beðinn velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.

Fyrir hönd Klúbbs matreiðslumeistara

Björn Bragi Bragason
Forseti

DEILA