Afsláttur veiðigjalds: ekkert mat liggur fyrir

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþm. Mynd: visir.is

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir að hún hafi ekkert mat á því hvað hækkun á afslætti veiðigjalds kosti ríkissjóðs.  Í gildandi lögum er veittur 20% afsláttur af fyrstu 4,5 milljón króna álögðu veiðigjaldi og 15% af næstu 4,5 milljón krónum. Samtals er afslátturinn 1,575 milljón krónur af 9 milljónum króna veiðigjaldi eða 17,5%. Undanfarin þrjú ár hefur þessi afsláttur samtals lækkað veiðigjaldið um 0,2 til 0,3 milljarð króna ár hvert.

Nýja reglan hækkar afsláttinn upp í 40% og þá af fyrstu 6 milljónum króna af álögðu veiðigjaldi, en enginn afsláttur er veittur eftir 6 milljóna króna markinu er náð.

Áhrifin af breytingunni liggja ekki fyrir í framlögðum gögnum málsins á Alþingi en formaður nefndarinnar hefur kynnt málið þannig að afslátturinn sé aukinn.

Fyrir 4,5 milljón króna veiðigjald hækkar afslátturinn um 20% eða 900 þúsund krónur. Það er 100% hækkun mælt í krónutölu. Verði veiðigjald útgerðar 6 milljónir króna eykst afslátturinn úr 1,125 milljón króna upp í hámarkið 2,4 milljónir króna. Hækkunin er 113%. Sé miðað við 9 milljón króna veiðigjald eða hærra er afslátturinn miðað við núgildandi lög 1,575 milljónir króna en hann verður 2,4 milljónir króna miðað við tillögu atvinnuveganefndar. Hækkunin á veittum afslætti er 66%.

Samkvæmt þessu er hækkun afsláttarins frá 66 – 113%.

DEILA