Af vegagerð og ferjusiglingum.

Jóhannes Haraldsson.

Þann 30. apríl síðastliðin fékk ég á tölvuskjáinn, eftir beiðni mína, afrit af samningi Vegagerðarinnar um ríkisstyrktar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð. Samningurinn er sem kunnugt er við fyrirtækið Sæferðir sem nú er í eigu Eimskips, og lítur að rekstri ferjunnar Baldurs.

Í samningi þessum kemur fram að hann rann út 31. maí 2018, þ.e mánuði eftir að ég fékk hann í hendur.

Þar sem ég er mikill áhugamaður um vegabætur um Austur Barðastrandasýslu, finnst mér ákaflega ógáfulegt að sóa fjármunum í rekstur á ferju sem einungis nær að þjóna hluta umferðarinnar til og frá viðkomandi svæði, og halda úti um leið þjónustu á vegum fyrir hinn hluta umferðarinnar, vegum sem á köflum þarfnast í það minnsta brýnna lagfæringa, svo ekki sé meira sagt. Þess vegna er ég líka mikill áhugamaður um að afleggja ríkisstyrki til ferjunnar Baldurs, og hef komið þeim ábendingum til samgönguráðherra að nota frekar sambærilegar fjárupphæðir til viðhalds og lagfæringa á núverandi vegi um Gufudalssveit.

Á líðandi hausti tók vegagerðin sig til og gerði endurbætur á veginum um vestanverðan Þorskafjörð. Þar hafði á sínum tíma verið lagaður til gamli troðningurinn frá u.þ.b 1950 og sett þokkaleg ræsi á Múlaá og Hjallaá. Þessi mjói vegur var svo lagður einbreiðu malbiki (slitlagi) sem nú á síðustu árum var orðið verulega slitið og hættulegt. Þessi lagfæring, sem gerir veginn „næstumþví“ tvíbreiðan, verður að teljast til verulegra bóta og sýnir að vel má gera bragarbætur á gömlum slóðum.

Eins og ég hef áður skrifað, hefur ferjan Baldur sogað til sín 3544 milljónir króna á 25 ára tímabili frá 1993 til 2017, reiknað á verðlagi janúar 2018. Þessi tala segir þó ekki alla söguna því hér er einungis um að ræða rekstrarstyrki til skipsins sjálfs. Bygging, breytingar og rekstur hafnarmannvirkja eru ekki inni í þessum tölum.

Þann 2.júlí 2018 sendi ég svo fyrirspurn til Samgönguráðaneytisins til að fá upplýsingar um hvort til stæði að endurnýja samninginn, eða með öðrum orðum, hvort til stæði að halda áfram ríkisstyrkjum til ferjusiglinga yfir Breiðafjörð. Beið ég svo svars til hausts en ákvað að ítreka erindið þann 6.október þegar þolinmæði mín brast.  Nú stóð ekki á svörum og var mér tilkynnt í tölvupósti þann 11. október að búið væri að semja við Sæferðir um áframhaldandi ferjusiglingar milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey. Jafnframt var harmað að vegna „misskilnings“ hefði farist fyrir að svara upplýsingabeiðni minni fyrr.

Sem sagt. Á meðan „misskilningur“ ríkti milli Samgönguráðaneytisins og Vegagerðarinnar um hver ætti að svara fyrirspurn minni, náðist að endursemja um ríkisstyrkta ferju yfir Breiðafjörð, tiltölulega þegjandi og hljóðalaust.

Í framhaldi af þeirri staðreynd var fátt annað að gera en senda eina fyrirspurn enn, og nú beint til Vegagerðarinnar til að forðast allan „misskilning“. Spurningarnar voru 5, og svar fékk ég nú í vikunni.

 

 

 

 

 

Fyrirspurnin með svörum Vegagerðarinnar. Svörin eru með rauðlituðu letri.

 

Spurning 1.

Til hve margra ára er nýgerður umræddur samningur milli Vegagerðarinnar og Sæferða?
Samkvæmt útboðsgögnum er samningurinn til 4 ára og heimild er til að framlengja í eitt ár í viðbót.

Spurning 2.

Hvað gerir Vegagerðin ráð fyrir að árlegur kostnaður stofnunarinnar, af umræddum ferjusiglingum, verði?

Áætlaður styrkur til siglinga vegna Breiðafjarðarferju er um 252 m.kr. á ári.

Spurning 3. Með smá formála.

Nú hefur Vegagerðin væntanlega þurft að leggja mat á þörfina sem liggur að baki ákvörðun um að halda áfram ferjusiglingum yfir Breiðafjörð, samhliða að halda uppi þjónustu á veginum um Barðastrandasýslur. Og langar mig því að vita. Hjá hverjum leitaði Vegagerðin álits og fékk umsagnir í þessu ferli?  (sveitastjórnir, hagsmunaaðilar, t.d stórir flutningsaðilar o.s.fr.)

Við gerð útboðsgagna sumarið 2018 um siglingar Breiðarfjarðarferjunnar var höfð hliðsjón af þeim óskum sem komu fram á fundi sem haldin var í samgönguráðuneytinu þann 15. september 2017.  Á þeim fundi voru fulltrúar atvinnurekenda, starfandi bæjarstjóri Vesturbyggðar og fulltrúar íbúa.

Spurning 4. Með samskonar formála.

Nú í haust hefur Vegagerðin staðið fyrir endurnýjun á Vestfjarðavegi í Þorskafirði, úr fjarðarbotni og út að brekkufæti Hjallaháls á Þórisstöðum. Á umræddum kafla var eldri einbreið klæðning rifin upp, vegurinn lítilega breikkaður (allavega á pörtum) og sett breiðara bundið slitlag á. (afsakið að ég er ekkert sérlega mikill sérfræðingur í svona lagfæringum á vegum en veit bara sem notandi að breytingin er veruleg) Og þá langar mig að vita.

Hver er áætlaður kostnaður við umrætt verk, eða lokakostnaður ef hann liggur fyrir nú þegar?

Áætlaður lokakostnaður við þessa framkvæmd verður um 45 m.kr. þegar lokið verður við seinna lag klæðingar vorið 2019.

Spurning 5. Og að lokum.

Þar sem ég er mikill áhugamaður um að fjáraustri á skattfé almennings, út um púströrið á ferjunni Baldri, linni, og að peningarnir verði frekar settir í að lagfæra núverandi vegslóða um Gufudalssveit, þá langar mig að vita….

Stendur til af hálfu Vegagerðarinnar að lagfæra og endurbæta fleiri vegarkafla, á leiðinni Skálanes – Þórisstaðir, líkt og gert var í vestanverðum Þorskafirði, nú í haust?

Það stendur ekki til að ráðast í frekari aðgerðir á þessum kafla að svo stöddu.

 

Á svörunum sést að nokkur hundruð milljónir munu gufa upp um púströrið á Baldri næstu árin, meðan vegfarendur um Gufudalssveit munu spóla um í drullusvaðinu og rifist verður um hvar leggja skuli nýjan veg. Þessir peningar verða allavega ekki notaðir í að lagfæra núverandi slóða.

Það er athygli og umhugsunarvert fyrir notendur á veginum um Gufudalssveit að sjá að með ríkisstyrk eins árs, til ferjunnar Baldurs, mætti lagfæra og leggja slitlag á 4 vegarkafla, sambærilega við þann sem bættur var í vestanverðum Þorskafirði nú í haust, ef við tökum frá 50 milljónir árlega til að halda úti góðum samgöngum við Flatey.

Það má líka líta á þessa staðreynd þannig að á næstu 4 árum munu 800 – 1000 milljónir fara forgörðum, á sama tíma og öllum má vera orðið ljóst að engin nýr vegur verður tilbúinn, sama hver þeirra leiða sem nú eru til skoðunar, verður fyrir valinu.

Sú ákvörðun Vegagerðarinnar að framlengja samning um ríkisstyrkta Breiðafjarðarferju er því óskiljanleg í ljósi þessa, og þess að kaflar á núverandi vegi verða alltaf í notkun, hver sem niðurstaðan í leiðarvali framtíðarvegar verður.

 

Með kveðju.

Jóhannes Haraldsson

DEILA