Villandi nafn á deiliskipulaginu

Mörgum er umhugað um hvernig er útlits í kringum Safnahúsið.

Þann 8. október síðastliðinn birtist grein á bb.is undir fyrirsögninni: „Ef þetta er upphafið, hver er þá endirinn?“ Greinin fjallaði um auglýsingu nýs deiliskipulags á Ísafirði og að í því væri fallið frá núverandi deiliskipulagi, þar sem engar nýbyggingar eru leyfðar á reit Safnahússins eða í nágrenni þess. Í greininni segir:

„Við upphaf málsins heimilaði bæjarstjórn aðeins vinnu við deiliskipulag vegna fyrirhugaðar stækkunar á leikskólanum Eyrarskjól, á þeim fundi var sérstaklega tilgreint að ekki væri gert ráð fyrir neinum breytingum utan lóðarmarka Eyrarskjóls… Án umræðu eða samráðs við íbúa Ísafjarðarbæjar var tillögu að 600 fermetra byggingu fyrir ótilgreinda þjónustu við Safnahúsið smokrað inn á skipulagið.“

Í greininni segir enn fremur að engin þarfa- eða kostnaðargreining liggi fyrir á slíkum breytingum eða að óskir hafi komið fram um slíkt menningarhús. Heldur væri nærtækara að standa vörð um þá starfssemi sem þegar er til staðar.

BB.is hafði samband við Daníel Jakobsson formann bæjarráðs til að fá nánari skýringar á þessari nýtilkomnu byggingu sem áætluð virðist vera fyrir ofan Safnahúsið. Hann svaraði því til að bygging af þessu tagi hefði verið í umræðu lengi, þó aldrei hefði það komist lengra en á umræðustigið. Ætlunin væri að þetta yrði þjónustuhús og viðbót við Safnahúsið en nánari hugmyndir væri ekki búið að útfæra.

„Hvort sem þetta verður kaffihús, geymslur fyrir safnahúsið, aðstaða fyrir starfsfólkið, listagallerí eða bara almenn stækkun við Safnahúsið þá er ekki búið að útfæra þær hugmyndir,“ segir Daníel. „Enda er byggingin ekki á 5 ára fjármálaáætlun og ég myndi halda að það væru frekar 10-15 ár í að framkvæmdir hefðust. En þegar og ef það verður þá er alveg ljóst að byggingin verður að falla vel að Safnahúsinu og umhverfinu í kring.“
Daníel segir jafnframt að skipulagsnefnd hafi sett bygginguna inn á deiliskipulag til kynningar og bæjarstjórn síðan auglýst deiliskipulagið, sem er í umsagnarferli. Í því ferli felst að áhugasamir geta sent inn athugasemdir varðandi deiliskipulagið og komið þannig skoðunum sínum á framfæri.

„Mistökin felast í því að deiliskipulagið kallast „viðbygging við Eyrarskjól.“ Segir Daníel. „Og skipulagið snérist um það að heimila stækkun á Eyrarskjóli en skipulagsmenn bættu svo hinni byggingunni við, á Túngötu 10, á leikvellinum og í áttina að Safnahúsinu. Þetta er ekki í ótakti við aðalskipulagið en það þarf að fara varlega og það er vilji bæjarstjórnar að kanna hug bæjarbúa til þessarar byggingar,“ segir Daníel.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA