Upplifun vestfirskra ferðaþjóna á samdrætti

Mikið hefur verið fjallað um samdrátt milli ára í ferðaþjónustu á Íslandi síðastliðin misseri. Komið hefur fram að um sé að ræða fækkun á gistinóttum, ferðamaðurinn sé að skilja minna eftir sig, fækkun hefur orðið í sérferðum og hefur helst hækkun á verðlagi verið kennt um.

Vestfirskir ferðaþjónar hafa ekki farið varhluta af samdrættinum sérstaklega að því virðist hvað varðar gistingu.

Birna Mjöll Atladóttir á Hótel Breiðavík sem er búin að standa að rekstri hótelgistingar, svefnpokapláss og tjaldsvæðis síðustu 20 árin segist þurfa fara mjög langt aftur í tímann til að finna jafn fáar gistinætur eins og í sumar. Samdrátturinn hófst sumarið 2017 og jókst nú síðastliðið sumar.  Fækkunin nemur um 50% frá metárinu á Breiðavík sem var árið 2015.

Fækkunina sér Birna sérstaklega í hótelgistingunni en minna á tjaldsvæðinu.

Aðspurð hvað hún telur hafa mest áhrif minnist Birna á hækkun verðlags og mikla aukningu í húsbílaferðamönnum, svokölluðu camper ferðamönnum. Birna tekur sem dæmi að frá upphafi hefur hún ávallt boðið uppá kaffi en nú í sumar hafi hún neyðst til að fara rukka um kaffið því húsbílaferðalangurinn kemur inn, skilur ekkert eftir sig en situr jafnvel allan daginn og nýtir fría kaffið og frítt net. Einnig segir hún dæmi um að ferðamennirnir nýti sér aðstöðuna á tjaldsvæðinu án þess að greiða fyrir.

Stella Guðmundsdóttir í Heydal í Ísafjarðardjúpi tekur í sama streng og Birna en fækkunin er minni þar heldur en hjá Birnu. Stella finnur fyrir 25% minnkun á milli ára á mánuðunum maí og júní en einungis 8% fækkun í júlí og ágúst. Stella telur að samdrátturinn orsakist af mörgum samverkandi þáttum, veðráttan, verðlagning og HM í Rússlandi hafi allt haft sín áhrif.

Mest tekur Stella eftir því að ferðamaðurinn sé að skilja minna eftir sig, haldi frekar að sér höndum í fjárútlátum.

 

Sigurður Aðalsteinsson hjá Westfjords Safari sem býður uppá hvalaskoðun á Rib bát í Ísafjarðardjúpi kveðst aðspurður ekki finna fyrir samdrætti, aukning varð hjá honum í bókunum frá skemmtiferðaskipunum en fækkun í lausaumferðinni. Vill hann meina að ekki hafi vantað lausaumferðina og stærsti orsakavaldurinn fyrir fækkun þar hafi hreinlega verið tíðin, þurfti ítrekað að fresta eða fella niður ferðir vegna veðurs.

 

Allir ferðaþjónar sem rætt var við voru sammála um að breyting er að verða á atvinnugreininni, aðrir markhópar en áður séu að sækja landið heim og að greinin þurfi að breytast með breyttu andrúmslofti. Ekki er þó neinn bilbug að finna á viðmælendum og telja þau öll að ef unnið er vel að málum eigi greinin eftir að halda áfram að skapa okkur tekjur hér á Vestfjörðum.

Halla Lúthersdóttir