Tveir gámar með plasti fóru til Þýskalands

Gámaþjónusta Vestfjarða hefur sagt frá því að í lok ágúst fóru tveir gámar með plastumbúðum frá fyrirtækinu og út til Þýskalands. Plastið kom frá heimilistunnum íbúa Vestfjarða og kom vel út við skoðun. Það þýðir að plastið var vel flokkað og hreint. Plast á að flokka þannig að allt mjúkt glært plast á að setja í glæran plastpoka í hliðarhólf endurvinnslutunnunnar. Þar mega einnig fara plastumbúðir eins og utan af sjampóbrúsum og öðru, plastdósir og plastpokar. Mikilvægt er þó að hreinsa umbúðirnar.
Markmið Gámaþjónustu Vestfjarða er að endurvinnsluefni sem flokkað er frá heimilisúrgangi sé meira en 25% af heildar heimilisúrgangi. Ýmsar vörur eru framleiddar úr endurrunnu plasti, þar á meðal bekkurinn á myndinni hér að ofan. Þess vegna er mikilvægt að ganga vel um endurvinnsluefnið og flokka vel.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA