„Þetta var mjög góð og falleg samverustund“

Halldór Gunnar og Fjallabræður. Mynd: Önfirðingafélagið.

Önfirðingafélagið stóð fyrir samverustund í Neskirkju í Reykjavík á föstudaginn síðasta. Þá voru 23 ár liðin frá því að snjóflóðið féll á Flateyri og brottfluttir Flateyringar hittust þess vegna til að heiðra minningu þeirra sem létust í flóðinu. Fjallabræður sungu fyrir kirkjugesti og Svavar Knútur spilaði og söng af sinni hjartatæru snilld.

„Þetta var mjög góð og falleg samverustund,“ sagði Kristín Gunnlaugsdóttir í samtali við BB. „Það komu yfir hundrað manns og það var byrjað á því að syngja lagið „Þess vegna erum við hér í dag,“ og endað á laginu „Hafið eða fjöllin.“ Ég bað fólk að rísa úr sætum þá og syngja með. Eiríkur Finnur Greipsson var með fallega frásögn frá þessum degi 1995 og Fjallabræður og Svavar Knútur voru mjög góðir. Séra Skúli talaði um hvað það væri stórkostlegt að horfa á alla faðmast þegar fólk kom inn í kirkjuna, við værum sem ein fjölskylda.“


Kristín sagði blaðamanni einnig frá því að Halldór Gunnar Fjallabróðir og Svavar Knútur hefðu rifjað upp minningar frá Flateyri og samheldninni þar. Þeir tóku undir orð séra Skúla um að Flateyringar væru eins og ein stór fjölskylda.

Önfirðingafélagið seldi einnig dagatöl með myndum frá Önundarfirði á samkomunni. Myndirnar eru eftir Önfirðinga og svo vel tókst til að dagatalið seldist upp. Önnur prentun er þó komin af stað og Soffía Ingimarsdóttir mun selja dagatölin á Flateyri.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA