Stuðningshópur Sigurvonar

Thelma Hjaltadóttir hlaut heiðursslaufu Sigurvonar.

Saumaklúbbsstemmning var í fyrsta hittingi stuðningshópsins Vina í von á Ísafirði á laugardag. Um var að ræða fyrsta fund vetrarins hjá hópnum en hann hittist hálfsmánaðarlega yfir vetrartímann fyrir tilstilli Krabbameinsfélagsins Sigurvonar. Þar geta krabbameinsgreindir og aðstandendur þeirra hist, veitt hver öðrum stuðning og miðlað af sameiginlegri reynslu. „Ég fann það á eigin skinni hvað stuðningur skipti miklu máli er ég gekk í gegnum mína meðferð en þá sótti ég fundi hjá stuðningshópnum Bata á Selfossi. Það var því sjálfsagt mál að setja á fót stuðningshóp Sigurvonar fljótlega eftir að félagið var stofnað 2001,“ segir Heiðrún Björnsdóttir annar stofnandi Vina í von.

Helena Hrund Jónsdóttir, formaður Sigurvonar tekur undir þetta. „Það er gott að tala við einhvern sem skilur hvað maður er að ganga í gegnum og hefur jafnvel gengið í gegnum svipaða reynslu. Bleika slaufan þetta árið hvetur okkur til að vera til staðar fyrir hvert annað, hvetja konurnar í lífi okkar til að mæta í skoðun og einnig ef við vitum um einhvern sem er að ganga í gegnum erfiða reynslu að hunsa það ekki. Þessi hvatning á að sjálfsögðu líka við um alla hópa og einnig karlmenn.“

Við það tilefni að Vinir í von hittust þótti tilvalið að afhenda heiðurslaufu Sigurvonar en í þetta sinn hlaut hana Thelma Hjaltadóttir sem unnið hefur gott starf fyrir félagið undanfarin fimm ár. Vel var mætt á fundinn og mikið skrafað en boðið var upp á ljúffenga kjötsúpu.

DEILA