Spurt um áhættumatið á Alþingi

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Teitur Björn Einarsson, alþm hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um áhættumat Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun í laxeldi.

Spyr hann hvort aðferðafræði Hafrannsóknarstofnunar hafi verið yfirfarin og vísindalegt gildi hennar staðfest af óháðum aðilum og eins hvort forsendur reiknilíkansins hafi fengið sambærilega rýningu. Í þriðja lagi er spurt um það hvort áhættumatið hafi verið endurreiknað með tilliti til mótvægisaðgerða.

Fyrirspurnin í heild:

1.      Hefur aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við gerð áhættumats vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi, útgefins í júlí 2017, verið yfirfarin og vísindalegt gildi hennar staðfest af óháðum aðilum, innlendum sem erlendum?
2.      Hafa forsendur reiknilíkans fyrir áhættumatið, svo sem 4% þröskuldsgildi og 15% kynþroskatíðni eldislaxa, verið yfirfarnar, ritrýndar eða hlotið fræðilega umfjöllun óháðra aðila, innlendra sem erlendra?
3.      Telur ráðherra að komið hafi fram nýjar upplýsingar í öðrum rannsóknum eftir að áhættumatið kom út í júlí 2017 eða athugasemdir sérfræðinga við forsendur áhættumatsins sem gefa tilefni til þess að endurskoða áhættumat Hafrannsóknastofnunar?
4.      Hefur Hafrannsóknastofnun unnið nýtt áhættumat um mögulega erfðablöndun milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða sem lagðar voru til í tilgreindu áhættumati og miða að því að draga úr áhættu á erfðablöndun eldislaxa? Ef ekki, er von á að nýtt áhættumat verði unnið?
5.      Hvaða áhrif kynni það að hafa á niðurstöður áhættumatsins ef tekið væri tillit til eftirfarandi mótvægisaðgerða í forsendum þess:
a.      notkunar stærri seiða við útsetningu og möskvastærðar í sjókví í samræmi við stærð útsetningarseiða, til að minnka eða útiloka smug seiða,
b.      ljósstýringar frá hausti til vors til að minnka eða útiloka kynþroska á eldistíma?

DEILA