Skrifuðu undir samning við Vestra og munu spila 2 leiki um helgina

Frá vinstri: Helgi Bergsteinsson, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Rúnar Ingi Guðmundsson. Mynd: Vestri.is

Ísfirðingarnir Gunnlaugur Gunnlaugsson, Helgi Bergsteinsson og Rúnar Ingi Guðmundsson skrifuðu allir undir samning við Vestra við upphaf tímabilsins eins og sagt er frá á heimasíðunni. Þessir strákar eru allir uppaldir innan vébanda Vestra en eiga mislangan feril að baki.

Gunnlaugur Gunnlaugsson er uppalinn í KFÍ en lék einnig með UMFB um tveggja ára skeið. Hann kom við sögu í 22 leikjum á síðasta tímabili og var líklegast sá leikmaður sem fiskaði hvað flesta ruðninga í deildinni, ef ekki á landinu. Hann lék einnig 6 leiki með B-liði Vestra í 3. deildinni þar sem hann skoraði 19,2 stig að meðaltali í leik og hjálpaði liðinu að ná 2. sæti.

Helgi Bergsteinsson hefur leikið með meistaraflokki félagsins síðan 2014. Hann kom við sögu í 19 leikjum í 1. deildinni á síðastliðnu tímabili en lék einnig 6 leiki með B-liði félagsins í 3. deildinni og leiddi það í stigaskorun með 21,0 stigi að meðaltali í leik.

Rúnar Ingi Guðmundsson er að hefja sitt fjórða tímabil í meistaraflokki. Hann kom við sögu í 15 leikjum í 1. deildinni á síðasta tímabili ásamt því sem hann lék 2 leiki með B-liði félagsins í 3. deildinni. Hann var tilnefndur af KFÍ sem efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2015.

Auk þremenninganna kemur nú upp úr yngri flokkum öflugur hópur efnilegra leikmanna sem sumir hverjir komu við sögu í sínum fyrstu meistaraflokksleikjum á síðasta tímabili. Það verður spennandi að fylgjast þessum ungu piltum taka slaginn í 1. deildinni í vetur.

Núna um helgina mun Vestri mæta Sindra frá Höfn í Hornafirði í tveimur leikjum á Jakanum. Leikirnir eru á laugardag og sunnudag og byrja báðir klukkan 14.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA