Sjónarhorn starfsmannsins og Vestfirðingsins

Bernharður Guðmundsson.

Nýlega settum við út 12 kvíar á Eyrarhlíð í Dýrafirði. Ný starfstöð sem við erum mjög stolt af. Mikil vinna og skipulag fylgir svona uppsetningu. Plássið sem þessar 12 kvíar geyma er um 480.000 rúmmetrar. Menn geta leikið sér með þessa tölu ef menn ætla sér með þetta upp á land. Það yrði skelfileg mikil röskun á landi og þyrfti gríðarlega mikla rafmagnsnotkun. Í þessum kvíum höldum við þéttleika á laxinum ekki yfir 15 kg á rúmmetrann sem er mun minni þéttleiki en er oft á landi. Með því höfum við haldið laxalús algjörlega niðri í sumar, og margir hafa öfundað okkur að hafa náð þeim árangri sem raun ber vitni. Öll þessi gögn er hægt að nálgast á heimasíðu MAST. Á annari starfstöð, Gemlufalli í Dýrafirði sáum við engin vetrarsár í vetur og lúsin hefur varla sést og má þar þakka grásleppuseyðum sem við höfum keypt og litlum þéttleika. Fiskurinn kvíunum er mjög fallegur og við í fiskeldinu undrumst oft myndir sem við sjáum í fjölmiðlum af half uggalausum laxi og grindhoruðum. Því mjög sjaldan sjáum við svoleiðis fisk í eldinu. Það eru tekin botnsýni 3 sinnum á eldisstöð. Áður en það er byrjað, þegar lífmassi er í hámarki og þegar búið að slátra öllum fiski á staðsetningunni. Alltaf hefur þetta verið í góðu lagi hjá okkur í Arctic Fish og þessar upplýsingar eru aðgengilegar almenningi. Við erum ekki risastórt fyrirtæki eins og svo margir halda. Við erum rúmlega 30 manns hjá Arctic Fish sem fengu tækifæri að öðlast þekkingu og starfa við nýja atvinnugrein. Við erum sjómenn og bændur sem fóru ekki frá vestfjörðum vegna þess að eigendur og þeir sem fjármagna fiskeldið höfðu trú á okkur sem hér búum. Þeir bjóða okkur ekki bara vinnu heldur menntun og tækifæri til að vera í ábyrgðastöðu og klífa upp stigann. Þeir láta okkur
“ skipta máli“. Sem verður ekki sagt um þá sem koma að skipulagi þessarar atvinnugreinar. þetta hefur verið rosalega mikil vinna að læra bæði með huga og höndum það sem norðmennirnir hafa verið kenna okkur. En það hefur tekist vel og allt leit vel út áður en þessi 5 manna nefnd kom saman. Við erum rosalega stolt af okkar framleiðslu og þeirri þekkingu sem okkur hefur áskotnast. Fyrir því vil ég þakka erlendum fjárfestum þá aðalega NRS frá Noregi fyrir að hafa trú á okkur hér fyrir vestan. Þeir hefðu auðveldlega flutt inn mannskap frá Noregi en þeir gerðu það ekki. Takk fyrir það…Takk fyrir ykkar traust..

Bernharður Guðmundsson, Flateyri og stöðvarstjóri í Dýrafirði.

DEILA