Samgönguáætlun komin út- framkvæmdir í hafnarmálum

Marzellíus Sveinbjörnsson

Samgönguáætlun

Í þessari viku lagði samgönguráðherra fram samgönguáætlun á Alþingi. Þar ber margt á góma, veglagning um Teigskóg eru að fullu fjármagnaðar en ennþá er málið fast milli Reykhólahrepps og Vegagerðarinnar. Þar þarf ríkið að grípa inní tafarlaust og höggva á hnútinn svo framkvæmdir geti hafist.

Áætlað er að bjóða út Dynjandisheiði árið 2020 en þar virðist hönnunar og stjórnsýsluferli tefja framkvæmdina eins og glögglega kom fram á fundi Vegagerðarinnar á Ísafirði í sumar. Þar þurfa stjórnvöld sömuleiðis að stíga inní, ákveða hvaða veglínur skuli fara svo hægt sé að fullhanna framkvæmdirnar og bjóða þær út fyrr.

Það er svo mjög ánægjulegt að 550 milljónir séu áætlaðar í stórhættulegan einbreiðan veg í Djúpinu á næsta ári þegar farið verður í framkvæmdir frá Kambsnesi að Eyðinu í Seyðisfirði. Í framhaldinu verður svo einbreiða brúin við Hattadal aflögð og ný tvöföld brú byggð samkvæmt áætluninni.

Hafnarframkvæmdir

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi stækkun Sundahafnar á Ísafirði. Slík framkvæmd felur í sér dýpkun við Sundin, niðurrekstri á þili og lengingu hafnarkants. Mikil þörf er á stækkuninni, með því móti er hægt að taka stærri skemmtiferða og flutningaskip að bryggju. Samhliða uppbyggingu eldis fylgir aukin umferð skipa og báta auk þess sem bærinn hefur úthlutað HG lóð undir nýtt frystihús við fyrirhugaðan kant. Auk þess hafa fleiri sjávarútvegstengd fyrirtæki sótt um lóðir á suðurtanganum sem treysta á stækkun hafnarinnar. Þörfin er því brýn.

Það er því mikið fagnaðarefni að samgönguráðherra hafi sett inná 5 ára samgönguáætlun fjármuni til dýpkunar og byggingu hafnarkants við Sundahöfn. Framkvæmdir við hafnir landsins skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga og felur því fjármagnið frá ríkinu það í sér að Ísafjarðarbær getur farið á fullt með Vegagerðinni að fullhanna framkvæmdirnar og  farið af stað í útboð á sínum hluta framkvæmdanna.

Ennfremur er áætlað að klára lagfæringar á Flateyri auk þess sem endurbygging á innri hluta hafnargarðsins á Þingeyri eru kominn á áætlun og ennfremur eru framkvæmdir um að klára þilið á Suðureyri áætlaðar.

Ég vil taka það fram að það hefur verið þverpólitísk samstaða um uppbyggingu hafnarmannvirkja í Ísafjarðarbæ undanfarin ár sem hefur ekki síður hjálpað málinu. Framundan eru því ærin verkefni í uppbyggingu hafnarmannvirkja í Ísafjarðarbæ, bæði í nýframkvæmdum og ekki síður skipulagningu og tiltekt sem ég hlakka til að takast á við.

Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ og formaður hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar

DEILA