Rangfærslur og áróður engum til framdráttar.

Rebekka Hilmarsdóttir og Bjarnveig Guðbrandsdóttir. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í ljósi þess hvernig umræðan um fiskeldi og búsetuþróun á sunnaverðum Vestfjörðum hefur verið afvegaleidd með upphrópunum, rangfærslum og áróðri, sjáum við okkur knúnar til þess að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

 

Umhverfismál

Það er mikilvægt að árétta að leyfissviptingin sem allt fjaðrafok hefur verið út af er ekki vegna þess að fyrirtækin uppfylli ekki umhverfiskröfur, heldur af því að aðrar leiðir voru ekki skoðaðar. Þær leiðir þóttu svo augljóslega ekki koma til greina á sínum tíma að ekki þótti ástæða til að skoða þær sérstaklega. Núverandi leið hefur staðist allt umhverfismat, en mikil vinna var lögð í það umhverfismat á árunum 2012-2015 og leyfið loks veitt eftir margra ára ferli í desember 2017. Ekki var byrjað á framkvæmdum fyrr en öll leyfi voru komin. Öllum kröfum og reglugerðum um umhverfismál er fylgt eftir og hvergi hefur verið gefinn afsláttur af þeim. Það er Vestfirðingum mikið hagsmunamál að hér sé rekin umhverfisvæn matvælaframleiðsla í sátt við bæði náttúru og samfélag. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa lagt mikinn metnað í umhverfisstefnu sína á undanförnum árum og hafa fengið alþjóðlega umhverfisvottun sem viðurkenningu fyrir árangur sinn á því sviði. Atvinnustarfsemi á svæðinu, hvort sem er ferðaþjónusta eða matvælaframleiðsla, á allt sitt undir vönduðum vinnubrögðum og góðu sambýli við náttúruna. Því hefur ekki og verður ekki slegið af kröfum um umhverfisvernd í tengslum við uppbyggingu nýrra atvinnugreina á svæðinu.

 

Íbúaþróun

Samfélaginu hér vestra hefur brugðið talsvert við að sjá hvernig umræðan hefur snúist yfir í orðræðu sem er bæði lítilsvirðandi og mannmeiðandi. Þar sem málsmetandi fólk kemur fram í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum og reynir að gera lítið úr því uppbyggingarstarfi og þeirri samfélagsþróun sem átt hefur sér stað. Við hér í Vesturbyggð metum alla íbúa til jafns. Hér eru allir jafnmiklir Bíldælingar eða Tálknfirðingar hvort sem þeir eru fæddir á Þingeyri, í Varsjá, Höfðaborg eða í Garðabæ. Hér eru allir hluti af samfélagsheildinni og mikilvægur þáttur í því samfélagi sem við byggjum. Mest uppbygging hefur átt sér stað á Bíldudal og hefur íbúafjöldi þar meira en tvöfaldast á örfáum árum. Til merkis um þær breytingar sem orðið hafa er fyrsta íbúðahúsið í byggingu í þorpinu í 30 ár. Uppbygging í Tálknafirði og á Patreksfirði er komin skemmra á veg, en þar fer stór hluti af núverandi uppbyggingu fram og er fólki að fjölga þar aftur.

 

Starfsmannafjöldi

Hjá fyrirtækjunum Arnarlaxi og Arctic Sea Farm eru 165 manns  á launaskrá, auk á annað hundrað manns sem starfa hjá verktökum og þjónustufyrirtækjum við eldið. Í heild eru það því um 300 manns sem starfa við eldið beint, af um það bil 700 manns sem eru á atvinnumarkaði á svæðinu. Það er því ljóst að fiskeldið snertir beint stóran hluta þeirra fjölskyldna sem búa á svæðinu. Uppbygging annarar þjónustu byggist jafnframt á því að hér sé nægur fjöldi íbúa til að slík þjónusta beri sig, hvort sem það eru grunnskólar og önnur samfélagsþjónusta, verslanir, veitingahús eða annað.

 

Aðkoma erlendra fjárfesta

Reynt hefur verið að gera lítið úr mikilvægi fyrirtækjanna og starfsemi þeirra á þeirri forsendu að erlendir fjárfestar eigi bróðurpartinn af hlutafénu. Fiskeldi hefur verið stundað á Suðurfjörðunum í áratugi, en upphaf laxeldis í Arnarfirði á rætur sínar að rekja til Bíldælings sem flutti til Noregs og starfaði að uppbyggingu laxeldis þar. Í samstarfi við aðra heimamenn fékk hann til liðs við sig bæði innlenda og erlenda fjárfesta til að byggja upp öfluga, umhverfisvæna matvælaframleiðslu á heimaslóðunum. Aðkoma norskra fjárfesta að verkefninu er mjög mikilvæg, enda hafa Norðmenn meiri reynslu en nokkur önnur þjóð af laxeldi. Þeir koma því ekki bara með fjármagn inn í verkefnið heldur einnig hafsjó af reynslu og þekkingu og er margt sem Íslendingar geta lært af þeirra uppbyggingu, bæði því sem hefur gengið vel og því sem miður hefur farið. Alls hafa Arnarlax og Arctic Sea Farm fjárfest fyrir um 21 milljarð króna og skila á öðrum milljarði króna á ári í launatekjur á svæðinu.

 

Áróður og umræða

Því miður hefur mikið borið á því í umræðunni að slengt sé fram “staðreyndum” sem eiga við engin rök að styðjast. Að sjálfsögðu er fiskeldi ekki án umhverfisáhrifa, frekar en önnur matvælaframleiðsla, en fá ef nokkur önnur matvælaframleiðsla hefur jafn lágt kolefnisspor og fiskeldi í sjó. Afkoma heimamanna er undir því komin að fiskeldi sé rekið samkvæmt ströngustu umhverfisstöðlum og gangi ekki of nærri lífríkinu í fjörðunum. Þó fiskeldi sé orðinn stærsti atvinnuvegurinn hér er hann ekki sá eini og gæta þarf þess að jafnvægi sé á milli manns og náttúru, sem og á milli hinna mismunandi atvinnugreina. Hér starfa metnaðarfullir líffræðingar og aðrir sérfræðingar við rannsóknir og eftirlit til að tryggja að svo sé.

 

Við hvetjum fólk eindregið til þess að halda áfram að fylgjast með umhverfisáhrifum og mengunarvörnum, líkt og við gerum sjálf. En til þess að umræða um slík mál sé árangursrík þarf hún að vera yfirveguð og fagleg og byggð á staðreyndum og veruleika. Rangfærslur og áróður er engum til framdráttar, hvorki náttúrunni né samfélaginu og síst þeim sem á bakvið hann standa.

 

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar og Bjarnveig Guðbrandsdóttir oddviti Tálknafjarðarhrepps

 

DEILA