Páll Sindri er kominn í knattspyrnulið Vestra

Páll Sindri. Mynd: Vestri.is

Skagamaðurinn Páll Sindri Einarsson hefur gengið til liðs við 2. deildar lið Vestra í knattspyrnu. Páll Sindri var áður með ÍA en lék með Kára í 2. deildinni á síðasta leiktímabili. Hann var þó kallaður aftur til ÍA um mitt tímabil þar sem ÍA var í harðri baráttu um að komast upp í Pepsí deildina. Páll Sindri skoraði 8 mörk í deildinni sem telst mjög gott fyrir miðjumann.

Forsvarsmenn Vestrasíðunnar tóku smá viðtal við Pál Sindra og spurðu hvernig honum litist á nýja liðið og liðsfélagana. Páll Sindri svaraði því til að hann bæri mikla virðingu fyrir Bjarna þjálfara og þegar Bjarni hefði falast eftir honum var engin spurning í huga Páls um að ganga til liðs við Vestra.

“Vestri spilar mjög agaðan bolta en það er eitthað sem Bjarni hefur tamið sér í gegnum tíðina. Það er mikið af flottum leikmönnum í liðinu og svo má ekki gleyma að minnast á umgjörðina, en hún er gjörsamlega til fyrirmyndar hjá Vestra,” sagði Páll Sindri í samtali við Vestra.

Hann segir verkefnið vera spennandi enda er hann nýjungagjarn og líki mjög vel að fara út á land að spila. „Svo skemmir ekki fyrir að ég fæ að kynnast staðnum sem langamma mín heitin, hún Helga Pálsdóttir, sem er frá Hnífsdal og afi minn Palli Skúla.”

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA