Örlítið fleiri konur en karlar í fastanefndum Ísafjarðarbæjar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar: Sigurður Jón Hreinsson, Hafdís Gunnarsdóttir, Aron Guðmundsson, Marzellíus Sveinbjörnsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Daníel Jakobsson, Þórir Guðmundsson, Sif Huld Albertsdóttir, Kristján Þór Kristjánsson, ný kjörinn forseti bæjarstjórnar og Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari.

Jafnréttisstofa sendi bréf til sveitarfélaga síðastliðið vor þar sem óskað var eftir upplýsingum um kynjahlutfall í fastanefndum. Í bréfinu var jafnframt vakin athygli á skyldum sveitarfélaga samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Meðal annars var bent á ákvæði sem kveður á um að þess skuli gætt við skipan í nefndir, ráð og stjórnir að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Bréf þetta var lagt fram á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 29. október þar sem einnig var lagt fram minnisblað Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur bæjarritara með töflu yfir kynjahlutfall í nefndum Ísafjarðarbæjar. Í minnisblaðinu má sjá að í ellefu fastanefndum Ísafjarðarbæjar gegna sjö konur formennsku en fjórir karlar. Þá eru 28 konur aðalfulltrúar og 25 karlar. Kynjahlutfall varafulltrúa skiptist þannig að konurnar eru 27 talsins og karlarnir 26. Konur eru því í örlitlum meirihluta í fastanefndum og formennsku í Ísafjarðarbæ þó hlutfallið sé nokkuð jafnt.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA