Orkustofnun veitir ferðaþjónustunni við Reykjanes leyfi til að nýta jarðhita

Kannski verður laugin í Reykjanesi bráðum heit aftur.

Orkustofnun veitti Rnes ehf eða ferðaþjónustunni við Reykjanes í Ísafjarðardjúpi, nýverið leyfi til að nýta jarðhita á svæðinu. Tölvupóstur þess efnis var lagður fram á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar 29. október en bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við lögmann um þessa ákvörðun og hver viðbrögð Ísafjarðarbæjar yrðu við henni.

Forsaga málsins er sú að í maí 2018 barst Orkustofnun umsókn frá Ferðaþjónustunni í Reykjanesi, Rnes ehf., um leyfi til nýtingar jarðvarma í landi Reykjafjarðar í Súðavíkurhreppi. Skilgreint nýtingarsvæði er samkvæmt umsókn leyfishafa á svæði í eigu Ísafjarðarbæjar sem á jörðina Reykjanes við Ísafjarðardjúp. Lóðin er í aðalskipulagi Súðavíkurhrepps skilgreint sem ferðaþjónustu- og iðnaðarsvæði. Deilur hafa risið milli Ísafjarðarbæjar og Orkubús Vestfjarða um það hvor aðilinn sé lögmætur eigandi jarðhitaréttina á umræddu svæði. Þessar deilur urðu til þess að Orkustofnun kannaði sérstaklega hvernig jarðhitaréttindum hafi verið varið frá stofnun héraðsskólans þar árið 1934. Orkustofnun óskaði jafnframt eftir umsögn Umhverfisstofnunnar, Náttúrufræðistofnunnar Íslands og Súðavíkurhrepps um umsókn Rnes ehf.

Umsóknin var kynnt fyrir Ísafjarðarbæ og meints aðila máls, Orkubús Vestfjarða ohf. í júní 2018. Frestur til umsagnar var gefinn til 10. ágúst sem var svo framlengdur og framlengdur aftur fyrir Orkubúið til 21. september.

Umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun bárust síðsumars. Náttúrufræðistofnun gerir ekki athugasemd við að jarðhiti sé áfram nýttur á svæðinu enda komi ekki annað fram í umsókninni en að nýta eigi þær borholur sem þegar eru til staðar. Umhverfisstofnun gerir heldur ekki athugasemd þó hún bendi á að það sé verið að skilgreina nýjan rekstraraðila, en notendur verði þeir sömu og til þessa og nýtingaleyfið kallar ekki á frekari framkvæmdir. Súðavíkurhreppur tók ekki afstöðu til erindisins og gerir því samkvæmt skilmálum Orkustofnunnar ekki athugasemdir við umsóknina.

Lögmaður landeigenda Reykjanessjarðarinnar, eða Ísafjarðarbæjar skrifaði í bréfi til Orkustofnunnar 13. september að Ísafjarðarbær sé eigandi nýtingarsvæðisins og þeirra jarðhitaréttinda sem umsókn Rnes ehf. beinist að. Rnes ehf. telur sig ekki þurfa að greiða fyrir auðlindina, samkvæmt auðlindalögum, og jafnvel eiga borholurnar sem Orkubú Vestfjarða hefur krafið hann um greiðslu fyrir að nýta. Í umsókninni frá Rnes er einnig sagt frá ágreiningi milli Ísafjarðarbæjar og Orkubús Vestfjarða um eignarhald á jarðhitaréttindum landsvæðisins. Umsækjandi tekur einnig fram að á svæðinu séu borholur sem hann var áður tengdur við og gæti tengst aftur gegn gjaldi til Orkubús Vestfjarða og án þess að sveitarfélagið taki afstöðu til þess hver sé réttur viðtakandi slíkrar greiðslu.

Ísafjarðarbær lagðist gegn því í sumar að Rnes ehf. fengi nýtingarleyfi fyrir rekstur hitaveitu í Reykjanesi, að minnsta kosti að svo stöddu, vegna óvissu um eignarréttindin á jarðhitanum. Lögmannsstofa Orkubús Vestfjarða skrifar aftur á móti að Orkubúið sé og hafi verið eigandi allra jarðhitaréttinda á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp frá stofnun þess 1977 og formlegur eigandi borholumannvirkja til nýtingar jarðhita frá 28. maí 2001. Lögmaður Orkubúsins fullyrðir jafnframt að „Orkubúið reki hitaveitu á Reykjanesi, í því skyni að veita jarðhitaorku til byggðar í grenndinni gegn greiðslu samkvæmt gjaldskrá Orkubúsins.“ Þá er skrifað að Rnes ehf. hafi óskað eftir því munnlega að fá ómælda hitaorku frá hitaveitumannvirkjum Orkubúsins án greiðslu en þeirri beiðni verið hafnað. Þess vegna telur lögmaður Orkubúsins að Ísafjarðarbær sé alls ekki eigandi jarðhitaréttinda á Reykjanesi og umsókn Rnes ehf. um nýtingu jarðhita sé einungis tilraun til að sniðganga viðskipti við Orkubúið.

Í bréfi Orkustofnunnar eru talin upp rök Rnes ehf. þess efnis að Orkubúið sé ekki réttur eigandi jarðhitans og eigendur ferðaþjónustunnar hafi eignast flest allt með og í kringum gamla héraðsskólann þegar hann var keyptur árið 2003. Kaupunum fylgdu allar eignir fyrrum hérðasskólans „ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber,“ og segir Rnes ehf. að það eigi einnig við um jarðhita „eftir þörfum stofnunarinnar,“ eins og stendur í afsali til skólans frá árinu 1940.

Orkubú Vestfjarða hafnar því aftur á móti að Rnes eigi jarðhitaréttindin og bendir því til sannmælis á afsal Ísafjarðarbæjar til Orkubúsins frá 1978 og samnings um ráðstöfun og hagnýtingu jarðhita á Reykjanesi frá 1984, ásamt fleiri gögnum. Orkustofnun bendir á að jafnvel þó Ísafjarðarbær hafi veitt Orkubúinu heimild til virkjunar jarðhita þá var jarðhitaréttindum ekki afsalað, enda sé slíkt óheimilt að lögum. Þá segir Orkustofnun jafnframt að jarðeiganda sé heimilt að nýta jarðhita á sinni landareign, samkvæmt vatnalögum.

Orkustofnun virðist komast að þeirri niðurstöðu að hvorki Orkubú Vestfjarða né Ísafjarðarbær eigi kröfu á að innheimta gjald fyrir heita vatnið frá Rnes ehf. „Orkustofnun bendir á að engar greiðslur, né tilraunir til innheimtu greiðslna fyrir jarðhita á Reykjanesi hafa verið gerðar um árabil, hvorki af Ísafjarðarbæ né Orkubúi Vestfjarða, né um þær samið af þar til bærum aðilum. Þvert á móti benda ölll gögn málsins til þess að Rnes ehf. eigi dreifikerfi hitaveitunnar og hafi sjálft rekið hitaveitu á Reykjanesi, án endurgjalds fyrir jarðhita og að félaginu hafi verið það heimilt að mati Orkustofnunnar.“ Stofnunin telur þó að Orkubúið eigi borholu nefnda R1 og farsælast sé að Rnes ehf og Orkubúið komist að samkomulagi um nýtingu hennar eins og að farsælast sé að Rnes ehf. og Ísafjarðarbær semji um gjald eða afnot af jarðhitanum.

Orkustofnun kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að Orkubú Vestfjarða hafi ekki nýtingarleyfi á jarðhita á Reykjanesi, reki þar ekki hitaveitu og hafi ekki sérleyfi til að reka þar hitaveitu. Ábúandi sé í fullum rétti til að nýta jarðvarma fyrir eigið húsnæði og atvinnustarfssemi enda sé það hagkvæmt frá þjóðhagslegu sjónarmiði til að tryggja nauðsynlegan aðgang að jarðhita þarfa atvinnutengdrar ferðaþjónustu á Reykjanesi. Um er að ræða heimild til nýtingar en ekki framkvæmda og Orkustofnun telur að veita megi leyfi til 40 ára.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA