Óraunveruleiki og óbærilega óvissa !

Steinunn G. Einarsdóttir.

Ástæðan eins og flestir vita er úrskurður fimm manna nefndar sem ég þekki ekkert til en samt hefur hún svona mikil áhrif á líf mitt og annara í kringum mig.
Eftir að hafa verið á sjó í 12 ár eignaðist ég barn nr 2 og þá þurfti dagvinnu tíminn að breytast, ég varð að komast í vinnu í landi.
Ég var svo heppin að vera boðið starf í Arctic Fish þar sem Egill(maðurinn minn) hafði líka farið af sjónum og í vinnu þar.
Starfið mitt hefur verið fjölbreytt frá byrjun enda ekki stórt í fyrirtæki en í vexti og mörg málefnin sem þarf að huga að. Nú eru að verða liðin 2 ár síðan ég hóf störf og starfa nú sem Gæðastjóri. Fyrirtækið hefur verið að vaxa og dafna og það eru ALLIR að leggja sig 100% fram sama hvort það sé í Seiðaeldisstöðinni-sjóeldinu eða skrifstofunni. Það er vandað til verka á öllum stöðum sem hefur sko sannarlega sýnt sig, Arctic Fish er vottað af ASC staðlinum (Aquaculture stewardship council) sem er einn strangasti umhverfisstaðallinn í fiskeldi. Nýlega fórum við í úttekt þriðja árið í röð það sem við rúlluðum því upp enda með allt upp á tíu! Við viljum gera hlutina vel í sátt við náttúru og samfélag.
En fyrr má nú vera! nú virðist svo vera að það væri sama hvað við værum að gera þá erum við barin niður, eitt skref áfram og tíu aftur á bak. Ég er búin að vera leið og við það að gefast upp en nei ég er ekki þekkt fyrir það, ÉG ER BRJÁLUÐ!
Þetta er hreinlega ekki boðleg aðför af okkur hérna fyrir vestan, mér líður eins og við höngum á húsþaki og þá kemur kerfið og reynir að traðka á okkur svo við föllum niður. Þetta er óraunverulegt að þetta skuli geta gerst og óvissan sem því fylgir er óbærileg!
Við Egill búum á Flateyri með 2 börn í skóla og leikskóla, á bakvið starfsmenn Arctic Fish búa margar fjölskyldur og fullt af börnum. Það er búið að vera svo gaman að fylgjast með þessari uppbygginu og bjartsýni sem hefur komið með fiskeldinu og þá sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Flestir úr vinahópnum hjá Agli hafa haft tök á að koma heim og starfa í beinum og óbeinum störfum í fiskeldinu.
Við þurfum börn til að halda uppi skólum og leikskólum á þessum litlu stöðum, það hefur áhrif á allt samfélagið hvort þessi atvinnugrein fái að eflast. Mig langar ekki einu sinni að hugsa hvernig þetta verður ef allt fer á versta veg, en við getum alveg séð það fyrir okkur og þangað ætlum við ekki.
Ég vil fá að ráða hvar ég bý, það viljum við öll. Hér vilja börnin mín vera frjáls og geta búið við þau forréttindi sem fylgja þeim. Við áttum okkur á alvarleika þessa úrskurðar sem búum hér en við verðum að opna augu sem flestra því ég er viss um að allir vilji hafa Vestfirðina í byggð og á fullum snúning. Í þessu þurfum við stuðning ykkar kæru vinir því hér viljum við vera og viljum fá að starfa í þessari skemmtilegu atvinnugrein sem fiskeldi er!

 

Steinunn G. Einarsdóttir, gæðastjóri hjá Arctic Fish, Flateyri.

DEILA