Mikilvægt að nýta krafta allra

Friðbjörg Matthíasdóttir, bæjarfulltrúi í Vesturbyggð.

Friðbjörg Matthíasdóttir, oddviti D- lista, sjálfstæðismanna og óháðra segir mikilvægt að nýta krafta allra  sem íbúar hafa kosið til setu í bæjarstjórn. Hún var spurð að því hvernig D listinn sæi fyrir sér samstarf innan bæjarstjórnar í framhaldi af samkomulagi meirihluta og minnihluta þess efnis að minnihluti fer með formennsku í tveimur veigamiklum nefndum og ennfremur var hún spurð að því hvort D listinn myndi bjóða upp á sams konar samstarf við aðstæður þar sem D listinn færi með meirihluta. 

„Ég tek undir með forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar, Iðu Marsibil að það er mikilvægt að nýta krafta allra þeirra sem íbúar hafa kosið til setu í bæjarstjórn. Undanfarin tvö kjörtímabil hefur verið lögð á það mikil áhersla í Vesturbyggð að nefndir séu mannaðar góðu og áhugasömu fólki, án tillits til flokkamerkinga. Við upphaf síðasta kjörtímabils auglýsti D-listinn m.a. eftir áhugasömum íbúum til að bjóða sig fram í nefndir til að auka breiddina. Margir af þeim einstaklingum sem þá fóru í nefndir sitja enn í nefndum sveitarfélagsins. Við munum leggja okkur fram um að sinna þeim verkefnum sem okkur eru falin í góðu samstarfi við N-lista. Ég er engin spákona og get því ekki lofað því hvernig landið liggur að loknu núverandi kjörtímabili.

Framundan eru miklar áskoranir fyrir sveitarstjórnarfólk og leysa þarf brýn framfaramál fyrir Vestfirðinga alla og ekki síst á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er okkar allra hagur að við horfum frekar á það sem sameinar okkur heldur en sundrar og að við vinnum samhent að því styrkja samfélagið í Vesturbyggð.“ sagði Friðbjörg Matthíasdóttir að lokum.

DEILA