„Lífið er gott – annað er augnablik“

Pétur Markam, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.

„Lífið er gott – annað er augnablik.“  Svona seldi konan  á antikmarkaðnum í fjallabænum Nyons mér myndina gömlu. Myndin var hluti af vonarherferð í seinna stríðinu, örugglega ein af mörgum í héraðinu. Myndirnar  voru hengdar  upp í almenningsrýmum til þess eins að minna fólk á það góða, og vonina sem síðust slekkur hugarljósið.

Myndin sjálf er ekkert sérstök, lýsir á einfaldan hátt venjulegum fjölskyldum þræða göngustíg, strolla á ströndina á hefðbundnum sólardegi. Venjulegt en gott líf – sumir hlæjandi og aðrir æjandi.

Myndin minnir mig á eitt – lífið á Vestfjörðum er gott. Sagan minnir mig á hitt, vonina. Vonina sem við verðum að geyma fima og funheita í sál, haus og hælum.

Vestfirðir lifi!

Ég ætla að hlífa vígamóðum lesanda við vopnaglamri í þessum örpistli – hér verður þakkað og þérað eftir þörfum, eins og viðeigandi er við ferðalok. Ég læt af formennsku Vestfjarðastofu og FV á haustþingi Vestfjarðastofu, sem sett verður í dag, 5. október og lýkur á laugardaginn 6. október, með nýja forystu í brúnni.

Stofnun Vestfjarðastofu er mesta framfaraskref  í vestfirskum sveitarstjórnarmálum í lengri tíma. Vestfjarðastofa geymir tvo meginkrafta Vestfjarða, byggðaþróun og atvinnuþróun, sameinaði verkefni Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða  og verkefni Fjórðungssambands Vestfjarða. Vestfjarðastofa geymir nú úrvals mannauð, vel menntað fólk og þrautreyndan hóp, splæsir saman mögulega samlegð ólíkra verkefna og magnar upp eitt öflugt hagsmunaafl fyrir Vestfirði.

Margar ólíkar atlögur hafa verið gerðar við sameiningu þessara verkefna  gegnum árin – en að þessu sinni tókst vel til. Fátt hefur eflt Vestfirði meira. Fátt gleður mig meira.

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa samþykkt að hefja sameiginlegt svæðisskipulag. Strandabyggð og Reykhólahreppur, ásamt Dalabyggð, sem góðir vita að á að tilheyra Vestfjörðum, fólkið þar er svo mikið úrvals, riðu á vaðið og eru að klára sameiginlegt svæðisskipulag. Sveitarfélög á Vestfjörðum þurfa að efla með sér samstarf og sameiningu krafta. Vinna við sameiginlegt svæðisskipulag er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.

Hagsmunamál Vestfjarða hafa undanfarið komist mun meira í kastljós fjölmiðla, kaffistofa og almannaróms. Þaðan endurvarpast baráttan, samkvæmt frumstæðri hegðun pólitíkur, til landsstjórnmála.  Eitthvað sem sárlega hefur vantað, en undanfarin tvö ár hefur orðið stigmögnun í umfjöllun fjölmiðla um málefni Vestfjarða.  Slíkt er nauðsynlegt, þó umræðuhamurinn geti stundum veðrað mann og gert óálitlegan í einhverjum fínum boðum. Þá er bara að muna eftir voninni; Vestfirðir lifi! Svo kosta húsin okkar alltaf það sama – sem þykir skrítið í sömu boðum.

Starfsfólki Vestfjarðastofu, áður FV, þakka ég fyrir kjark til að klára stór og stæðileg verkefni með mér, æðruleysi í mestu hviðunum og kappnóg af viti til að vinna Vestfjörðum til heilla.

Stjórn hefur unnið sem einn maður frá fyrsta degi, samlynd, stórskrefuð og sigrandi. Árangurinn eftir því. Ég þakka sömuleiðis samfylgd og samstarf.

„Mér er sama hvað þú gerir, hvenær og hvernig…,“ sagði gamall menntaskólakennari einu sinni við mig, „…svo lengi sem þú gerir heiminn betri með orðum og gjörðum.“

Við lok formannstíðar lít ég yfir farin veg og mig grunar að ég hafi heiðrað þennan gamla mentor. Vestfirðir tóku framfaraskref  og heimurinn varð betri sem því nam.

Lífið er gott á Vestfjörðum – baráttan er augnablik. Vestfirðir lifi!

Takk fyrir mig.

Avignon, Frakklandi  4. október 2018

Pétur G. Markan

Formaður Vestfjarðastofu og FV / sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

 

 

DEILA