Laxeldið skákar senn sjávarútveginum

Svo virðist miðað við fyrirliggjandi upplýsingar að stóru laxeldisfyrirtækin tvö á Vestfjörðum séu þegar farin að nálgast samanlagða veltu sjávarútvegsfyrirtækjanna  á Vestfjörðum þrátt fyrir að vera enn í uppbyggingarferli. Tekjur Arnarslax 2017 voru um 67 milljónir evra  eða um 10 milljarðar króna sem er meira en samanlagðar tekjur Jakobs Valgeirs ehf og Hraðfrystihússins Gunnvör hf.

Fjórðungssamband Vestfirðinga stóð að því að láta vinna skýrslu um sjávarútveg í Norðvesturkjördæmi, þ.e frá Akranesi vestur um Snæfellsnes, Vestfirði og norður í Skagafjörð. Samanlagðar tekjur fyrirtækjanna í kjördæminu í botnfiski árið 2017 voru liðlega 30 milljarðar króna. Ekki kemur fram hve mikið þar af eru tekjur vestfirskra fyrirtækja. Samanlagðar skuldir þyrirtækjanna í sjávarútvegi voru í lok árs 2017 um 48 milljarðar króna.

Til samanburðar má nefna að fjárfesting Arctic Fish og Arnarlax síðustu ár er orðin um 21 milljarður króna. Miðað við að fyrirtækin tvö hafi framleiðsluleyfi fyrir um 21.500 tonn gefur sú framleiðsla af sér um 21 milljarð króna í árstekjur eins og heimsverðin eru núna. Það er nokkuð örugglega hærri tekjur en af sjávarútvegurinum  á Vestfjörðum.  Fari svo að fyrirtækin haldi 17.500 tonna framleiðsluleyfunum , sem voru felld úr gildi þá geta tekjurnar vaxið upp í um 38 milljarða króna. Það er verulega meira en tekjur af öllum botnfiskveiðum og vinnslu í öllu Norðvesturkjördæmi.

Skýrsla Fjórðungssambandsins staðfestir hversu stór þáttur í vestfirsku atvinnulífi laxeldisfyrirtækin eru þegar orðin og sýnir vel hversu stór þau geta orðið.