Landssamband veiðifélaga: álit á úrskurði ÚUA

Frá 50 ára afmæli Landssambands veiðifélaga.

Landssamband veiðifélaga hefur birt skýringar kærenda og umfjöllun þeirra á úrskurði Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Landssambandið var ekki aðili að kærunum en hins vegar félög innan þess.

Þar er bent á að úrskurðarnefndin hafi fellt leyfin úr gildi á grundvelli þess að í  umhverfismatinu voru ekki bornir aðrir kostir saman við laxeldið í sjó og af þeim sökum hafi nefndin ekki fjallað sérstaklega um aðrar málsástæður kærunnar.

Skýringar Landssambands veiðifélaga eru orðrétt þessar:

Niðurstaðan byggir fyrst og fremst á einu kæruatriðanna, þ.e. að andstætt lagaskyldu var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti en þann eina, sem leyfishafinn ákvað sjálfur að fjalla um.  Og ekki voru heldur borin  saman umhverfisáhrif hinna ýmsu valkosta við aðalvalkost framkvæmdaraðilans. Þá fór ekki fram lögbundin rannsókn samkvæmt m.a. stjórnsýslulögum né heldur settur fram rökstuðningur til að meta hvort eða með hvaða hætti hægt væri að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt.

 

Ef spurt er einfaldlega, hver sé ástæða ógildingarinnar, þá er svarið: Rekstraraðilinn, Skipulagsstofnun og Matvælastofnun brutu lagaákvæði og reglur um sjókvíaeldi.

 

Þar sem niðurstaða ÚUA er skýr og lýkur málinu, var af nefndarinnar hálfu ekki ástæða til að fjalla sérstaklega um aðrar málsástæður kærunnar.

 

Hins vegar voru ýmis önnur kæruatriði lögð fyrir nefndina sbr. meðfylgjandi kæru. Til fróðleiks eru nokkur þeirra nefnd hér á eftir í stuttu máli, en í viðhengi er kæra til ÚUA í máli nr. 5 frá 16. janúar 2018 í heild ásamt lista yfir 15 fylgiskjöl.

 

  1. Matvælastofnun hefur ekki sýnt fram á, hvernig útgáfa  rekstrarleyfisins samrýmist ákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. (Þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt

lax- og silungsveiðilögum og hins vegar fiskeldisins, skulu hinir síðarnefndu víkja).

 

  1. Bent var sérstaklega á staðfestingu framkvæmdaraðila sjálfs á bls. 86-87 í matsskýrslu hans á yfirvofandi hættu fyrir nánast allar veiðiár landsins og þar með skaðsemi sjókvíaeldisins fyrir náttúru alls landsins.

 

  1. Bent var á mikilvæga yfirlýsingu framkvæmdaraðilans sjálfs á bls. 91 í matsskýrslunni, að það sé sjálfsögð og eðlileg krafa að íslenskum laxastofnum verði ekki ógnað og að engu leyti fórnað vegna uppbyggingar laxeldis.

 

  1. Bent var á, að Matvælastofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því, að meðferð stofnunarinnar á leyfisumsókn sé hluti af umhverfismatsferli samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og þar af leiðandi hafi stofnunin ekki framkvæmt fullnægjandi rannsókn og greiningu á málinu

né tekið með ásættanlegum hætti rökstudda afstöðu til ákvörðunar Skipulagsstofnunar  né framkvæmdarinnar sem slíkrar.

 

  1. Ekki var lagaheimild til afnota hafsvæðisins sbr. 2.ml. 40. gr. stjórnarskrárinnar, enda gat framkvæmdaraðilinn ekki lagt fram skilríki fyrir afnot sín af hafinu eins og skylt er skv. 8. gr. fiskeldislaga nr. 71/2008.

 

  1. Ekkert var fjallað um fordæmalausa stærð eldisins né sammögnunaráhrif af þeim sökum og andstöðu og ábendingar Hafrannsóknastofnunar í umsögn dags. 27. nóvember 2017 m.a. um stórhættulega magnviðbót með tilheyrandi erfðamengun villtra laxastofna,  sjúkdómahættu og lúsafári.

 

  1. Fjarlægðarmörk á milli eldissvæða væru ekki samkvæmt fyrirmælum reglugerðar nr. 1170/2015 um lágmarksfjarlægð.

 

  1. Í málsmeðferð Matvælastofnunar var í engu sinnt þeirri staðreynd að með risaeldi með 16 milljónum kynbættra  laxa af framandi eldisstofni í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði væru allar veiðiár allt í kringum landið í hættu vegna erfðamengunar frá strokfiski, en þó mest á Vestfjörðum og á nærliggjandi laxveiðisvæðum við Breiðafjörð, Faxaflóa og Húnaflóa.

Lögvernduðum eignaréttindum annarra, nær og fjær væri því í engu sinnt.

 

  1. Ekkert væri fjallað með raunhæfum hætti í rekstrarleyfinu um gífurlegt magn úrgangs frá sjókvíaeldinu, þar sem úrgangur frá 17.500 tonna eldi samsvaraði skolpfrárennsli frá 270.000 manna byggð.

 

  1. Matvælastofnun fjallaði ekkert um áhrif risalaxeldis á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum.

 

  1. Í engu er getið um álit Erfðanefndar landbúnaðarins  frá 6. júní 2017, þar sem nefndin segir, að frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum í sjókvíum sé óforsvaranleg og ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi þar með talið þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.

Þá er að engu getið úrskurðar ÚUA 20. júní 2017, þar sem ógilt var starfsleyfi fyrir 6.800

tonna eldi regnbogasilungs í innanverðu Ísafjarðardjúpi.

Þá er að engu getið áhættumats Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 vegna mögulegrar

erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Né heldur er getið um skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá 25. ágúst 2017, þar sem m.a. segir: „Líkt og áður hefur verið nefnt getur strokulax úr eldi gengið í ár langt frá sleppistað, jafnvel hundruð kílómetra í burtu.“

 

  1. Þá gætti Matvælastofnunar ekki ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt.

 

  1. Ummæli Matvælastofnunar um laxalús í fylgiskrifum með rekstrarleyfinu eru furðuleg og andstæð áliti Skipulagsstofnunar, enda hefur MAST gefið út í fréttatilkynningum sínum ýmist að laxalús hafi aldrei verið vandamál í fiskeldi á Íslandi eða þá að stofnunin hafi heimilað notkun lúsaeiturs til að reyna að hemja lúsafárið.

 

Velflest þessara atriða eru ein og sér fullnægjandi ástæða til ógildingar útgefinna rekstrarleyfa MAST, enda þótt  ekki hafi þurft að útskurða ógildinguna nema á grundvelli þess verulega annmarka að ekki hafi verið fjallað um aðra valkosti en þann sem framkvæmdaraðili kaus sjálfur.“

 

DEILA