Ísafjörður: heilsueflandi sveitarfélag

Frá undirritun samstarfssamningsins í gær.

Í gær varð Ísafjarðarbær heilsueflandi sveitarfélag þegar undirritaður var undir samstarfssamning milli Landlæknisembættisins, Ísafjarðarbæjar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Við þetta tækifæri var nýr göngustígur vígður og leikskólabörn af Sólborg klipptu á borða með dyggri aðstoð eldri borgara.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Á vef Landlænisembættisins er heilsueflandi samfélagi svo lýst:

Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir geirar hafa hlutverk. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar (sjá mynd Áhrifaþættir heilbrigðis og vellíðanar) s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum. Holla valið þarf að vera eins auðvelt og kostur er s.s. að hreyfa sig, borða hollt, rækta geðið og ástunda grænan lífsstíl á sama tíma og spornað er gegn áhættuhegðun s.s. neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna.

Sveitarfélög hafa sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag. Skilyrðin fyrir þátttöku eru að bæjar-/sveitarstjóri skrifi undir umsókn um þátttöku, skipaður sé þverfaglegur stýrihópur fyrir starfið sem tryggir aðkomu lykilhagsmunaaðila að því og sérstakur tengiliður er tilnefndur. Með undirskrift samnings um Heilsueflandi samfélag einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis og öðrum sem að starfinu koma.

Marzellíus Sveinbjörnsson tók myndirnar.

DEILA