Ísafjarðarbær tekur lán upp á 1.080.000.000 króna hjá Lánasjóði sveitarfélaga

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fundaði þann 25. október og samþykkti þar, eftir tillögu bæjarstjóra að taka lán upp á 1.080.000.000 króna hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lánið er tekið til 16 ára og með föstum verðtryggðum vöxtum. Lánið er tekið til að fjármagna ófjármagnaðar framkvæmdir sem gerðar voru á síðari hluta þessa árs, upp á 280.000.000 króna og til endurfjármögnunar á 800.000.000 króna láni af eigin fé Lánasjóðs sveitarfélaga. Það lán var tekið til að mæta uppgjörum vegna breytinga á A deild lífeyrissjóðsins Brúar og framkvæmdum á fyrri hluta árs 2018.

Þá kemur einnig fram í fundagerðinni að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi beðið um nánari upplýsingar vegna neikvæðrar rekstrarniðurstöðu A- og B hluta hjá sveitarfélaginu árið 2017. Forsvarsmenn Ísafjarðarbæjar svara því til að rekstarniðurstaðan hafi verið neikvæð árið 2017, þrátt fyrir að sveitarfélagið stæðist jafnvægisreglu og skuldareglu sveitastjórnarlaga, vegna þess að Ísafjarðarbær þurfti að gjaldfæra 159,3 milljónir króna vegna A deildar Brúar. Þetta megi sjá í skýringu númer 22 í ársreikningi Ísafjarðarbæjar 2017. Ekki hafði verið gert ráð fyrir þessari upphæð í fjárhagsáætlun ársins 2017 og ekki var unnt að bregðast við gjaldfærslunni með viðauka þar sem ekki fengust upplýsingar um áætlaðar fjárhæðir, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir sem sendar voru til Brúar. Fjárhæð gjaldfærslunnar lá því ekki fyrir fyrr en í janúar 2018 og þá orðið of seint að grípa til ráðstafanna með viðauka.

Þær ófjármögnðuðu framkvæmdir frá þessu ári sem meðal annars er verið að taka lán fyrir, innihalda ýmsar framkvæmdir. Þar má nefna malbikun á ýmsum götum, gervigrasvöll, skólalóð á Flateyri sem og nýr slökkvibíl á sama stað. Þá er snjósleði og fjórhjól fyrir skíðasvæðið á listanum, hafnarmannvirki og líkamsræktarstöð en áætluð upphæð við hana voru 200 milljónir króna sem síðan var lækkað niður í 10 milljónir. Framkvæmdirnar og kostnað við þær má sjá hér.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA