Innanlandsflug til Ísafjarðar, Bíldudals og á Gjögur eru almenningssamgöngur

Frá haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga 2018.

Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem haldið var á ísafirði um síðustu helgi, ályktaði um innanlandsflug. Krafist er aukins fjármagns til viðhalds og endurbóta á flugvöllum og lýst yfir stuðningi við framkomna þingsályktunartillögu á Alþingi  um könnun á stað fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

Ályktunin í heild er svohljóðandi:

„Áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, Bíldudals og Gjögurs eru mikilvægustu
almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins. Þess er vænst að tíðni áætlunarflugs til Bíldudals verði aftur færð til þess horfs sem var allt til ársins 2009 með sjö ferðum í viku.
Brýnt er að standa vörð um þá þjónustu og öryggi sem flugsamgöngur veita íbúum á
Vestfjörðum. Þess krafist að auknu fjármagni verði veitt til viðhalds og endurbóta á
flugvöllunum á Þingeyri, Bíldudal og Ísafirði. Þá minnir Haustþing á að mikilvægi
Reykjavíkurflugvallar fyrir samgöngur á milli landsbyggðar og höfuðborgar verður aldrei of oft ítrekað.
Haustþing styður þingsályktunartillögu þingmanna NV kjördæmis um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Bent er á stækkun þjónustusvæðis slíks flugvallar með tilkomu Dýrafjarðarganga og nýs vegar um Dynjandisheiði. Nýr flugvöllur er mikilvæg forsenda fyrir frekari atvinnuuppbyggingu í landshlutanum.“

 

DEILA