Hólmadrangur: greiðslustöðvun framlengd

Húsnæði Hólmadrangs ehf á Hólmavík.

Greiðslustöðvun Hólmadrangs ehf rennur út í dag. Gert er ráð fyrir því að greiðslustöðvunin verði framlengd. Á greiðslustövunartímanum hefur verið breytt um rekstur á þann hátt að rækja er unnin í verktöku frekar en að hún sé unnin í eigin reikning fyrirtækisins. Við það minnkar fjárbinding og áhætta sem fylgir endursölu brigða og innheimtu sölureikninga. Unnið er að því að semja við veðhafa, losa um eignir og leita að fjármagni til þess að fjármagna mögulega nauðsamninga. Hólmadrangur ehf heldur áfram rekstri meðan á greiðslustöðvun stendur.

Erfiðleikar í rækjuútgerð og vinnslu

Vegna samdráttar í rækjuveiðum og sterkri krónu þá lokaði rækjuverksmiðja FISK Seafood hf. á Grundarfirði í sumar og rækjuverksmiðjan Hólmadrangur á Hólmavík er nú í greiðslustöðvun.  Úthafsrækjuútgerðir á Vestfjörðum eru samkvæmt heimildum bb.is í vandræðum þar sem þær lögðu inn afla fyrir tugi milljóna inn til Hólmadrangs í sumar sem hefur ekki fengist greiddur.  Einkum munu eiga í hlut útgerðir sem lönduðu tímabundið hjá Hólmadrangi vegna sumarleyfislokunar hjá Kampa.
Þær rækjuverksmiðjur  sem eftir standa eru:
Kampi Ísafirði
Meleyri Hvammstanga
Dögun Sauðárkróki
Rammi Siglufirði
DEILA