Hæstiréttur: ríkið skaðabótaskylt vegna banns við innflutningi

Hæstiréttur Íslands kvað í gær upp dóm í máli Ferskra kjötvara ehf. gegn íslenska ríkinu. Í dómnum kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt vegna tjóns sem Ferskar kjötvörur ehf. urðu fyrir þegar fyrirtækinu var synjað um innflutning á kjöti sem hafði ekki verið fryst. Liggur nú fyrir niðurstaða íslenskra dómstóla um að íslensk lög og reglur, sem kveða á um að afla skuli leyfis fyrir innflutningi kjöts, eggja og mjólkurafurða og krafa um frystingu kjöts, brjóta í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Með dómi sínum staðfestir Hæstiréttur dóm héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. nóvember 2016 með skírskotun til forsendna hans. Getur Hæstiréttur þess sérstaklega að við upptöku matvælalöggjafarinnar í EES-samninginn hafi ekki verið gerður annar fyrirvari af Íslands hálfu en sá að ákvæði I. kafla Viðauka I við EES-samninginn skyldu ekki taka til Íslands að því er varðaði ákvæði um lifandi dýr og dýraafurðir á borð við egg, fósturvísa og sæði

Í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að Ísland hafi samþykkt árið 2007 að taka matvælalöggjöf Evrópusambandsins upp í EES-samninginn og tóku reglurnar gildi gagnvart Íslandi í nóvember 2011. Þessar reglur gilda þegar kemur að útflutningi íslenskra landbúnaðar- og sjávarafurða til ríkja á EES-svæðinu. Tryggja reglurnar að útflutningur eigi sér stað án kostnaðarsams og tímafreks eftirlits á viðtökustað. Í því felast mikil verðmæti en árið 2016 nam heildarútflutningur íslenskra landbúnaðar- og sjávarafurða til markaða innan Evrópusambandsins um 176 milljörðum króna.

Í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins er kveðið á um leyfisskyldu vegna innflutnings á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólkurvörum og að kjötvörur séu frystar. Deilt hefur verið um samræmi laga og reglna um varnir gegn dýrasjúkdómum við tilskipun 89/662/EBE sem kveður á um að dýraheilbrigðiseftirlit fari einungis fram á sendingarstað en ekki við landamæri.

Einnig vísar Hæstiréttur til niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017 um að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Nánar tiltekið að ekki væri unnt að vísa til markmiðsins um vernd lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum til að réttlæta takmarkanir á innflutningi í tilvikum.

Unnið að lagabreytingu

Frá uppkvaðningu dóms EFTA-dómstólsins hefur það verið forgangsmál stjórnvalda að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Við þá vinnu hefur verið lögð áhersla á að tryggja öryggi matvæla og vernd búfjárstofna. Í júlí sl. sendi Ísland umsókn til Eftirlitsstofnunar EFTA um heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar. Slíkar tryggingar munu gera stjórnvöldum kleift að krefjast ákveðinna vottorða um að tilteknar afurðir séu lausar við salmonellu. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum aðgerðum, m.a. varðandi kampýlóbakter.

Frumvarp til breytinga á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er á þingmálaskrá 149. löggjafarþings 2018-2019. Stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpinu í febrúar.

Sigurður Páll Jónsson fulltrúi Miðflokksins í Atvinnuveganefnd hefur krafist fundar eins fljótt og verða vill og vill að fulltrúar bænda og ráðherra landdbúnaðarmála upplýsi nefndina um stöðu mála í framhaldi af Hæstaréttardómnum.