Fjölmargar dvergasögur að vestan

Dvergasteinn í Álftafirði. Mynd: Ármann Hinrik sjá: https://www.flickr.com/photos/riverman/4915898842

Á morgun fer fram Þjóðarspegill, ráðstefna í Félagsvísindum í Háskóla Íslands. Þar flytja fjölmargir fræðimenn erindi úr ýmsum áttum, og þeirra á meðal er Alice Bower þjóðfræðingur sem ætlar að tala um vöxt dverga í þjóðsögum að fornu og nýju.

Dvergasögur virðast hafa verið algengar á Vestfjörðum ef marka má kort sem Alice hefur útbúið. Í erindi sínu mun hún fjalla um það hvað þjóðsögur geta sagt okkur um viðhorf til fatlaðs fólks eða að hvaða leyti mætti telja þjóðsagnadverga vera skopmyndir af fólki með fötlun eða öðruvísi líkama. Alice nefnir líka að dvergasögur geta verið heimild um viðhorf til annarskonar fatlana, eins og sagan um dvergasmyrslið í Bolungarvík ber merki um, en þar leita mennskir menn með veikindi hjálpar hjá dvergum.


Alice sagði í samtali við BB að vestfirskar dvergasögur væru fjölmargar og til dæmis þessar: Dvergur í Dvergasteini (Álftafirði), Dvergasteinar í Bolungavík (þar sem dvergurinn er með lækningarsmyrsl) og Gullsteinn á Gufudalshálsi. „Það eru að minnsta kosti til þrjár sögur um dvergastein í Álftafirði. Ein í safni Ólafs Davíðssonar, ein í Vestfirzkum þjóðsögum og önnur sem ég safnaði hjá núlifandi sagnamanni,“ segir Alice.

Þjóðsagnasafnarinn Einar Ólafur Sveinsson taldi að dvergasögur hefðu dáið mjög fljótlega út hér á landi eftir landnám. Þó má finna dverga í Eddukvæði og Snorra-Eddu en ekki er sagt frá vaxtarlagi dverga í elstu norrænu heimildum. Þó nefnir Snorri Sturluson að þeir hafi verið í mannslíki. Í miðaldasögum af dvergum kemur fram neikvætt viðhorf gagnvart smáu eða dvergvöxnu fólki og fötlun af einhverju tagi er oft nefnd í sögum sem refsing fyrir eitthvað athæfi. Alice nefnir sem dæmi söguna af Dvergi í Dvergasteini í Álftafirði og dæmi nú hver sem vill hver boðskapurinn er:
Dvergur í Dvergasteini

Í túninu á Dvergasteini í Álftafirði er stór og mikill steinn ekki ólíkur húsi að lögun og heitir hann Dvergasteinn. Áður fyrr var mikil helgi á steini þessum og því almennt trúað að þar byggi dvergur og fjölskylda hans. Ekkert var bóndanum á jörðinni jafn áríðandi, sem að koma sér vel við nábýlismann sinn, dverginn í steininum. Var forðast að börn hefðu frammi leiki eða aðrar ónáðir umhverfis steininn. Væri út af því brugðið mátti víst heita að eitthvað misferli henti bónda, svo sem missir á kind, kú eða hrossi.

Stundum sást dvergurinn eða birtist í draumi. Stundum sáust líka dvergabörnin að leik umhverfis steininn. Sagt er að sumar húsfreyjur á Dvergasteini hafi í töðugjöldum, jólum og á þrettánda farið með góðan málsverð að steininum með þessum formála: ,,Geri sér að góðu þeir sem í steini búa. Viljum við með vinsemd vættir góðar hylla!“ Allt var það þegið og hirt sem að steininum var borið.

Sagt er að ein húsfreyja á Dvergasteini hafi gert gabb að hinni miklu trú á dverginn í steininum. Lét hún börn sín leika sér umhverfis og á steininum með þeim ólátum sem þau vildu. Nótt eina dreymdi húsfreyju að dvergurinn í steininum kæmi til sín. Hann var mjög reiðilegur og mælti til húsfreyju: ,,Illa gerir þú og ósæmilega að gera mér og fjölskyldu minni allt illt er þú megnar. Skal nú lokið ódáðum þínum og þú meðtaka þau laun er þú hefir til unnið“.

Þegar dvergurinn hafði þetta mælt fékk húsfreyja augnverk svo mikinn að henni þótti sem höfuð sitt myndi springa. Jafnframt sótti að henni svo mikið magnleysi að hún gat sig hvergi hrært í rúminu. Sumir segja að hún hafi andast úr þessum leiða sjúkdómi en aðrir að hún hafi náð sér eftir margar vikur og þá verið breytt í sinni til dvergsins. Lét hún færa skreið og mat að steininum og lagði hart við að enginn kæmi þar nærri til leika eða ónæðis. Brá þá svo við að allur hagur húsfreyju og bónda greiddist hið besta en áður höfðu þau mætt ýmsum undarlegum óhöppum.

Vestfirskar þjóðsögur
sögn Friðriks Guðmundssonar

Alice Bower er enn að safna dvergasögum og lesendur þekkja einhverjar slíkar má hafa samband við hana á aeb15@hi.is

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA