Eru öðruvísi atvinnurekendur við Ísafjarðardjúp en á suðurfjörðunum?

Eggert Björgvinsson.

Ég vinn hjá Vinnueftirlitinu við að kenna á vinnuvélar. Síðasta vor vorum við með námskeið á Ísafirði sem síðan varð að fresta tvisvar vegna veðurs. Á endanum var námskeiðið haldið 12. til 14. júní. Það voru skráðir 9 Pólverjar og 12 Íslendingar á þetta námskeið en á námskeiðið komu 9 Íslendingar og enginn Pólverji. Það er ekki óalgengt að færri mæti en þeir sem skrá sig en okkur þótti skrítið að enginn Pólverji mætti. Í sumar hélt ég svo tvö námskeið á Patreksfirði, íslenskt námskeið þar sem 16 voru skráðir og allir mættu og pólskt námskeið þar sem 9 voru skráði og 7 mættu. Dagana  29. 30. og 31. okt. verður haldið annað námskeið á Ísafirði. Það námskeið er eingöngu fyrir lyftara og dráttarvélar vegna beiðni atvinnurekenda á svæðinu. Nú eru skráðir 6 Íslendingar og 5 Pólverjar á þetta námskeið og því enn pláss fyrir 10 til 12 manns á námskeiðinu.

Munur á suðurfjörðum og Ísafjarðardjúpi

Ég ákvað að bera saman þátttakendur á þessum tveimur stöðum þ.e.a.s. annars vegar á Patreksfirði og hins vegar Ísafirði. Þá kom í ljós ákveðin grundvallarmunur á greiðslutilhögun þátttakenda. Af 16 Íslendingum sem sóttu námskeið á Patreksfirði greiddu atvinnurekendur fyrir 14 en 2 greiddu sjálfir og atvinnurekendur greiddu fyrir alla 7 Pólverjana sem sóttu námskeiðið á Patreksfirði.

Á Ísafirði sóttu 9 Íslendingar námskeið í sumar og greiddu 3 af þeim námskeiðið sjálfir. Af þeim 9 Pólverjum sem skráðir voru en mættu ekki ætluðu allir að greiða námskeiðið sjálfir. Þegar þessi grein er skrifuð eru 6 Íslendingar skráðir á námskeiðið sem hefst mánudaginn 29. okt. tveir þeirra greiða sjálfir fyrir námskeiðið. 5 Pólverjar eru skráðir á þetta námskeið, greiða þeir allir sjálfir.

Að stjórna vinnuvéla án réttinda.

Maður sem stjórnar vinnuvél án réttinda er í dag sektaður fyrir það athæfi, enda breyttust vinnuverndarlögin nýverið á þá leið að nú er refsivert að stjórna vinnuvél án réttinda. Nú þegar hafa 3 einstaklingar verið kærðir fyrir að stjórna vinnuvél án réttinda og bíða þær kærur úrskurðar dómara um sektarupphæð. Sektin lendir á viðkomandi einstaklingi en ekki á atvinnurekanda. Ekki þarf að fjölyrða hér um viðbrögð tryggingarfélaga ef réttindalaus stjórnandi vinnuvélar veldur tjóni.

Góður atvinnurekandi sem ætlast til þess að launþegi vinni á vinnuvél hlýtur að byrja á því að senda viðkomandi launþega á réttindanámskeið fyrir vinnuvélar ef launþeginn er ekki með þau réttindi fyrir. Í allri þeirri umræðu sem undanfarið hefur verið um erlent vinnuafl á Íslandi, aðbúnað þess kaup og kjör vaknar hjá mér sú spurning, hvort erlendir stjórnendur vinnuvéla á Íslandi viti hvaða áhættu þeir eru að taka með því að stjórna vinnuvél réttindalausir og hvort alvinnurekendur upplýsi þá um hvernig réttindamálum er háttað hér á landi.

Eggert Björgvinsson,

Vinnueftirliti ríkisins

DEILA