Endurbætur á Vesturlínu

Gísli Eiríksson, verkfræðingur.

Í sumar var kynningarfundur Landsnets haldinn á Ísafirði og spurði undirritaður þá hvort það væri meiningin að fresta því að taka strenginn í gegn um Dýrafjarðargöng í notkun. Svörin voru ekki skýr, sagt var það væri ekki búið að taka ákvörðun um hvenær það yrði gert, fram kom að línan yfir fjallið væri í góðu lagi og ekki víst að það væri heppilegt að hafa þarna 13 km jarðstreng. Góður maður á fundinum benti þá á að í skýrslu Landsnets sem lá á borðunum stæði að umrædd tenging væri áætluð 2025, sjá eftirfarandi. „Ekki hefur ennþá verið ákveðið hvenær jarðstrengurinn verður spennusettur, en núverandi viðmið er að spennusetning fari fram eigi síðar en þegar afskriftatíma Breiðadalslínu 1 lýkur árið 2025.“ Á mannamáli þýðir þetta 2025, eða 5 árum eftir að það er mögulegt og 18 árum eftir að þetta var í raun ákveðið 2007.

Eftir fundinn hófst upprifjun á fyrirliggjandi gögnum um raforkukerfi Vestfjarða og tilraun til að setja nokkar punkta um málið í samhengi.

Á raforkukerfi Vestfjarða eru miklar truflanir. Flutningsleið rafmagns frá Sigöldustöð eða Blöndustöð að Ísafjarðardjúpi til Bolungarvíkur og Ísafjarðar er geysilöng og að hluta um erfitt landsvæði. Vesturlína er aðalflutningslína frá Hrútatungu til Mjólkár og um Breiðadalslínu 1 áfram að Ísafjarðardjúpi og á henni eru ákveðnir staðir verstir hvað varðar truflanir. Mikið er rætt um endurbætur á aðal flutningskerfinu á Vestfjörðum og hafa verið settar upp margar sviðsmyndir um endurbætur á flutningi orku með hringtengingum, meðal annars til Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Engar ákvarðanir hafa verið teknar og sennilega ekki von á ákvörðun alveg á næstunni. Sameiginlegt með öllum þessum sviðsmyndum er að Vesturlína er í áfram aðalahlutverki.

Truflanir á Vesturlínu eru megin ástæða truflana á afhendinu raforku á Vestfjörðum. Á meðan annað er ekki ákveðið er eðlilegt að vinna að nauðsynlegum endurbótum á línunni sem kemur þá að notum strax og nýtist til framtíðar. Einhvers staðar stendur skrifað að þeir staðir sem valdi flestum truflunum séu þverun Gilsfjarðar, lína á milli Skálmardals og Vattarfjarðar um Vattarfjall og lína frá Mjólkárvirkjun til Dýrafjarðar um Flatafjall. Í skýrslu Landsnets „Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, 2009“ er rætt um alla þessa staði og greint frá áætlunum um mögulegar úrbætur.

Flutningskerfi Landsnets. Mynd: Landsnet.

Rætt er um jarðstreng í Gilsfirði 5 km og í Vattarfirði 4,5 km, samtals myndi þetta kosta nálægt 1-1,2 milljarða, og samfélagslegur sparnaður sömu framkvæmda á 20 árum er metinn um 1 milljarður. Sem sagt Þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd. Ekkert er þó enn fyrirhugað að gera. Vegur kom yfir Gilsfjörð 1998 en við hönnun hans og brúar var náin samvinna við Landsvirkjun um leiðir til að leggja Vesturlínu með veginum sem loftlínu, eða í streng í veginum og brúnni. Ekkert hefur verið gert á 20 árum og ekkert virðist fyrirhugað. Samt kemur fram í fyrrnefndri skýrslu Landsnets 10 ára gamalli, að gert sé ráð fyrir að þessar tvær framkvæmdir eyði um 50% af truflanatilvikum, sem tvöföldun allrar Vesturlínu myndi skila og eins og áður segir séu þjóðhagslega hagkvæmar.

Þriðji staðurinn er á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar þar sem verið er að grafa Dýrafjarðargöng og á því verki að ljúka 2020. Í skýrslu Landsnets frá 2007 um flutningskerfið á Vestfjörðum stendur meðal annars:

„Fyrir liggur að Vegagerðin er að undirbúa lagningu jarðgangna undir Hrafnseyrarheiði milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, Breiðadalslína 1, sem er 132 kV tréstauralína, rekin á 66 kV liggur frá Mjólkárvirkjun að tengivirki í Breiðadal. Með tilkomu áðurnefndra jarðgangna skapast möguleiki til að leggja jarðstreng um göngin og leggja af erfiðasta hluta núverandi loftlínu. Jarðstrengslögnin mun þannig bæta áreiðanleika afhendingar á Norðanverðum Vestfjörðum.“

„Landsnet hefur ákveðið að óska eftir því við Vegagerðina að við hönnun og gerð jarðgangna milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði gert ráð fyrir lagningu 66 kV jarðstrengs í göngin. Verði af þessari framkvæmd mun hún að öllum líkindum draga úr bilanatíðni Breiðdalslínu 1. Framkvæmdin er ekki á áætlun og hefur ekki verið kostnaðarmetin.“

Þetta var fyrir 10 árum síðan, göngunum seinkaði og mætti þá ætla að menn væru tilbúnir til framkvæmda nú. Vissulega hefur verið samið um lögn strengsins í göngin við Vegagerðina, bæði að sprengja pláss í göngum og leggja strenginn og var þetta sett inn í útboðslýsingu ganganna og líkur því 2020. Á áberand stað á vef Landsnets má sjá eftirfarandi upplýsingar um jarðstreng í Dýrafjarðargöngum og nágrenni:

„Til að auka öryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum á að leggja 132 kV jarðstreng í fyrirhuguð Dýrafjarðargöng, milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, en áformað er að reka hann fyrst um sinn á 66 kV spennu.

Jarðstrengurinn mun leysa af hólmi hluta Breiðadalslínu 1, 66 kV loftlínu milli Mjólkár og Breiðadals, þar sem línan liggur yfir Flatafjall í allt að 750 metra hæð yfir sjávarmáli og aðstæður eru erfiðar til viðhalds og viðgerða.

Lagning strengsins er áformuð samhliða jarðgangagerðinni og verður hann tæplega 13 km langur, frá tengivirki við Mjólká að fyrstu stæðu í Dýrafirði þar sem hann verður tengdur inn á Breiðadalslínu 1. Með lagningu 132 kV strengs verður með einföldum hætti hægt að spennuhækka Breiðadalslínu 1 og eyða þannig mögulegum flöskuhálsi í flutningsgetu línunnar, sem er byggð fyrir þá spennu þó að hún sé nú rekin á 66 kV spennu.

Umhverfisáhrif jarðstrengsins eru metin óveruleg þar sem hann fylgir mannvirkjabelti samgangna og er ekki að valda nýju raski.“

Mynd af vef Landsnets, núverandi háspennulína og gangaleiðin.

Undirritaður hefur allan tímann unnið að undirbúningi Dýrafjarðarganga og nú framkvæmdum. Hann hefur með mikilli ánægju unnið að því með Landsneti að koma strengnum í göngin. Í einfeldni sinni hélt hann að unnið yrði að því að leggja tengilínur utan ganga á sama tíma þannig að hægt væri að tengja streng við opnun ganganna haustið 2020. Honum hefur svo smám saman orðið það ljóst að líklega væri ekki meiningin að taka strenginn strax í notkun, þrátt fyrir það sem stendur á áberandi stað á vefsíðu Landsnets. Um er að ræða 2,2 km streng Frá Mjólkárvirkjun að göngunum og 5 km streng frá göngum að þverun yfir Dýrafjörð við Dýrafjarðarbrú.

Eins og áður segir fannst eftirfarandi texti í áætlun Landsnets „Ekki hefur ennþá verið ákveðið hvenær jarðstrengurinn verður spennusettur, en núverandi viðmið er að spennusetning fari fram eigi síðar en þegar afskriftatíma Breiðadalslínu 1 lýkur árið 2025.“ Á mannamáli þýðir þetta 2025, eða 5 árum eftir að það er mögulegt og 18 árum eftir að þetta var í raun ákveðið 2007. Kostnaður við lögn strengsins í göngin er sögð um 300 m.kr. Leiðin utan ganga er aðeins lengri en um allgott land þannig að kostnaður er líklega sambærilegur.

Frá 1975 um það bil til ársins 2015 voru tvær raflínur frá Mjólkárvirkjun til Ísafjarðar, 66 KV lína sem Landsnet rekur nú sem Breiðadalslínu 1 og 33 KV lína Orkubúsins, sem að stofni til upprunalega línan frá Mjólkárvirkjun. 2015 skemmdist gamla línan mikið og hefur ekki verið lagfærð á milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar. Ástæðan er m.a. lagabreyting um að flutningur raforku af þessu tagi er nú hlutverk Landsnets en ekki dreifiveitu eins og Orkubúsins. Orkubúið hefur því ekki endurnýjað línuna á skemmda kaflanum og Landsnet ekki heldur. Ef samband bilar á milli Mjólkárvirkjunar og svæðisins við Djúp veður þar rafmagnsskortur, gerðist síðast 2015 þegar línan yfir Flatafjall var biluð í nokkra daga, með tilheyrandi rafmagnsskorti og truflunum á Ísafirði og Bolungarvík alla dagana.

Í því ljósi að nú er aðeins ein lína Mjólkárvirkjun- Breiðidalur (Breiðadalslína 1) er það enn furðulegra en ella að Landsnet skuli ekki drífa í að koma rafstreng um Dýrafjarðargöng í notkun sem allra fyrst. Að það sé ekki víst að heppilegt sé að hafa þarna 13 km jarðstreng getur ekki verið vandamál, þessir 5 km frá göngunum út að Dýrafjarðarbrú eru ágætis loftlínuleið og engin sérstök ytri rök fyrir streng þar. Strengurinn myndi þá styttast í 8 km.
Þessi orð eru sett á blað til að benda á hve fáránlegt er að lagfæra ekki strax þessa kafla á Vesturlínu sem hér hafa verið nefndir. Þær framkvæmdir koma strax að notum og verða jafnframt hluti af framtíðarraforkukerfi Vestfjarða. Sérstaklega kemur á óvart að ákveða ekki að klára strax og hægt er framkvæmd um lagningu jarðstrengs um Dýrafjarðargöng með tengingu hans. Skorað er á Landnet að hefjast þegar handa við að undurbúa þessa tengingu þannig að hún verði virk haustið 2020. Jafnframt að leggja nýja línu eða steng yfir Gilsfjörð og í kring um Vattarfjall sem fyrst til dæmis í framhaldi framkvæmda tengdum Dýrafjarðargöngum.

Gísli Eiríksson
verkfræðingur

DEILA