Byggðastofnun: blikur á lofti í atvinnulífi Vestfjarða

Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.

Byggðastofnun hefur tekið saman minnisblað fyrir forsætisráðuneytið um möguleg áhrif úrskurða úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Fram kemur  að verði ekkert gert muni lokast fyrir aðgang að lánsfjármagni og fjárfestar muni halda að sér höndum. Það verði afdrífaríkt þar sem fyrirtækin séu í uppbyggingu og þurfi að treysta á mikið lánsfé. Fáist ekki lánsfé sé grundvöllur fyrirtækjanna brostinn sem leiði til samdráttar og jafnvel til þess að starfseminni verði hætt. Það yrði gríðarlegt áfall fyrir Vestfirði.

Arctic Sea Farm hefur þegar fjárfest fyrir 7 milljarða króna og Arnarlax fyrir 14 milljarða króna.

Arnarlax setti út í sumar í Patreksfirði 1,2 milljón seiði sem áætlað er að slátra 2020. Þá yrði þau orðin að 6400 tonnum af laxi og fyrir afurðirnar fengjust 5,5 milljarða króna. Á næsta ári er áætlað að setja út 1,7 milljón seiði í Tálknafirði og slátra þeim sem laxi 2021. Það yrðu væntanlega um 8300 tonn að verðmæti 7 milljarðar króna. Fáist rekstrar- og starfsleyfi ekki verður líklega ekkert af þessum verðmætum, samtals 12,5 milljarðar króna færu forgörðum. Að viðbættum áhrifum málsins á eldi Arctic Sea Farm gæti verðmæti fisks að upphæð 25 milljörðum króna verið í húfi.

Þá segir í minnisblaðinu:

„Fjöldi starfsmanna félaganna tveggja er því á bilinu 160-170 og launagreiðslur á síðasta ári námu um 1,4 milljarði kr. Afleidd störf eru samtals um 150. Gera má því ráð fyrir að starfsemi félaganna hafi áhrif á nokkur hundruð fjölskyldur á Vestfjörðum. Til samanburðar er hægt að benda á að Vinnumálastofnun áætlar að samanlagt vinnuafl í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi sé ríflega 700 manns og um 4.000 manns á Vestfjörðum öllum.“

DEILA