Af hverju flutti ég vestur?

Lára Eyjólfsdóttir og Tálknafjörður.

Ég heiti Lára og bý á Tálknafirði. Er fædd og uppalin í Reykholtsdalnum í Borgarfirði og flutti hingað á Tálknafjörð árið 1982. Við hjónin kynntumst í Héraðsskólanum í Reykholti og það varð úr að ég ákvað að prófa að koma vestur. Á þeim tíma þótti þetta langt að fara, samgöngurnar voru ekki góðar og ég hafði aldrei komið á Tálknafjörð og mér óx þetta nú frekar í augum en ákvað að láta slag standa. Móttökurnar voru yndislegar, tengdafjölskyldan tók mér vel og hef ég á þessum tíma eignast nána og góða vini. Bý hér enn 36 árum seinna og vil hvergi annars staðar vera.

Lára og Sigurvin.

Tálknafjörður er í mínum huga yndislegur staður. Fjörðurinn er skjólsæll og fallegur, hér er gróðursæld og fallega skógræktin við skólann er vel til þess fallin að njóta útivistar. Margar fallegar gönguleiðir eru í umhverfinu og víða er hægt að ganga í fallegri fjöru. Náttúran heillar og hægt er að finna orkuna allt í kring hvort sem það er frá fjöllunum eða sjónum. Alltaf er jafn gott að koma heim eftir fjarveru og finna kyrrðina sem umlykur allt.
Hér er gott að ala upp börn, þau alast upp í öruggu umhverfi og fámennið gerir það að verkum að hér þekkja allir alla. Þannig að ef eitthvað kemur upp á er alltaf einhver til staðar sem sýnir stuðning og réttir hjálparhönd.

Að búa á litlum stað úti á landi hefur margar kosti. Hér eru stuttar vegalengdir, minni eldsneytiskostnaður og ekki mikill tími sem fer í að fara á milli staða. Við vorum svo heppin að börnin okkar voru með fyrstu nemendum sem nýttu sér nám sem í boði var við framhaldsdeildina á Patreksfirði og þurftu þar af leiðandi ekki að fara að heiman fyrr en að námi loknu.

Hér höfum við meiri tíma fyrir okkur sjálf og fjölskylduna. Hér er góður skóli og öflugt Ungmennafélag sem býður börnum upp á íþróttaskóla og æfingar sem þau eru dugleg að sækja. Hér er mjög góð aðstaða til íþróttaiðkunar. Við höfum góða sundlaug og íþróttahúsið okkar er vel nýtt og margir tímar í boði fyrir þá fjölmörgu sem hugsa vel um heilsuna.

Á svona litlum stað skiptir hver og einn miklu máli, það skiptir máli að við tökum þátt í því sem er í boði og yfirleitt er nóg um að vera, hvort sem það er við félagsstörf eða sjósund.
Á síðasta ári lét ég drauminn rætast og fór í jógakennaranám. Kenni nokkra jógatíma á viku og í fyrsta sinn er í boði fyrir nemendur grunnskólans að fara í jógatíma í vali. Og á þessum litla stað þar sem allir þekkja alla fékk ég endalausa hvatningu og stuðning þegar ég steig út fyrir þægindarammann og byrjaði að kenna. Er það gott dæmi um samheldni íbúa Tálknafjarðar.

Hér býr yndislegt fólk sem mér þykir vænt um hvort sem það eru íbúar eða nemendur og starfsfólk grunnskólans þar sem ég starfa. Hér vil ég vera áfram, í góðri vinnu, í góðu húsnæði og með fólkið mitt í kringum mig. Vera sjálfri mér nóg, meta og vera þakklát fyrir það sem ég hef og njóta líðandi stundar.

Mig langar til að skora á Margréti Brynjólfsdóttir á Patreksfirði að segja frá því hvers vegna hún flutti vestur á firði.

Lára Eyjólfsdóttir

DEILA