43 ár frá kvennafrídeginum 1975

Frá kvennafrídeginum 1975.

Í dag eru rétt 43 ár síðan mikill fjöldi kom saman á Lækjartorgi í Reykjavík.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 skyldi sérstaklega helgað málefnum kvenna. Íslensk kvennasamtök tóku höndum saman í upphafi árs 1975 til að skipuleggja aðgerðir ársins og héldu m.a. fjölsótta ráðstefnu í júní þar sem staða og kjör kvenna voru rædd og fjölmargar ályktanir og tillögur samþykktar. Meðal þeirra var tillaga frá Rauðsokkahreyfingunni þess efnis að konur tækju sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna, þann 24. október.

Kvenfélög og kvennasamtök mynduðu sérstaka nefnd í september 1975 til að undirbúa kvennafrí. Hún undirbjó daginn mjög vel um allt land og stóð m.a. fyrir útifundi á Lækjartorgi. Talið er að um 25.000 konur hafi safnast þar saman. Líklega er þetta einn stærsti útifundur Íslandssögunnar. Fjölmargir fundir voru haldnir um allt land sem voru einnig fjölsóttir. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og atvinnulífið lamaðist.

Heimild: Kvennasögusafn Íslands.

DEILA