Kjarasamningar runnu út fyrir rúmum fjórum árum

Lagðar voru fram 127 tillögur á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem nú stendur yfir í Reykjavík og hafa fastanefndir fundarins haft nóg að gera við það að ræða tillögurnar og afgreiða þær.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambandsins flutti að venju yfirlitsræðu um störf og viðfangsefni sem sneru að sambandinu.

Kom hann víða við. Fyrst má nefnda að Örn gerði athugasemd við þá þróun að opna fyrir togveiðar inn á hefðbundin veiðisvæði smábáta  tillaga um að minnkað verði svæði sem friðað hefur verið í áratugi fyrir togveiðum. „Allt í nafni vísindaráðgjafar Hafrannsóknastofnunar sem segir stærðarmörk veiðiskipa til nýtingar á miðunum óþarfa, það skipti ekki máli hvernig fiskurinn er veiddur. Ekki furða að smábátaeigendur spyrji; hvað er eiginlega að gerast? Er ef til vill hafin rýmingaráætlun fyrir tug togveiðiskipa styttri en 29 metrar til veiða á grunnslóðinni? Hvað er til ráða?“ spurði Örn Pálsson.

Þá vék Örn að kjaramálum. Kjarasamningar LS við sjómannasamtök rann út fyrir rúmum fjórum árum og hefur ekki verið endurnýjaður en unnið er eftir honum þar til hefur verið gerður. Kjarasamningur LS og Starfsgreinasambandsins um ákvæðisvinnu við línu og net rennur út um næstu áramót.  „Viðræður um nýjan samning hefjast á næstu vikum. Starfsgreinasambandið hefur tilkynnt að breytingar á sverleika línu og aukið bil milli króka kalli á sérstaka hækkun. Ljóst er að ekki er mikið borð fyrir báru til hækkana. Því til staðreyndar skal bent á að þegar LS undirritaði kjarasamninginn árið 2015 sem tryggði 300 þúsund króna lágmarkslaun var meðalverð á þorski 304 kr/kg en nú fyrstu 9 mánuði þessar árs skilaði þorskurinn 244 krónum.“

Þá ræddi Örn Pálsson um mönnunarákvæði smábáta.

„Við breytingu á stærðarmörkum krókaaflamarksbáta í júní 2013 vannst ekki tími til að ræða málið heildstætt þar með talin mönnun sem breyttist við stækkunina. Það var og er skilningur LS að ákvæði um stýrimann eigi ekki við dagróðrabáta. LS hefur fundað um málefnið við samgönguráðuneytið og það hefur verið kynnt í siglingaráði. Ég er bjartsýnn á að stutt sé í að fram komi frumvarp sem vonandi verði að lögum fyrir jól. Auk ákvæðis um stýrimann var gerð krafa um að skilgreindur yrði dagróðrabátur með sama hætti og gert er í lögum um stjórn fiskveiða – 24 klst, auk þess að opnuð verði leið fyrir skipstjóra með smáskipapróf að afla sér réttinda að 15 metrum. Það er eðlileg krafa þar sem smáskiparéttindin voru aðlöguð“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.