Mynd: Vinstri grænir.

Flokksráðsfundur VG var haldinn í Kópavogi í þetta sinn um síðustu helgi og hann sóttu á annað hundrað manns.  Næsti reglulegi flokksráðsfundur VG verður haldinn í Reykjavík í febrúar og þá verður einnig haldið upp á 20 ára afmæli hreyfingarinnar.

Á fundinum voru samþykktar nokkrar  ályktanir. Skorað var á Alþingi og ríkisstjórn að gera nauðsynlegar breytingar til þess að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði. Þá var ályktað gegn hvalveiðum og fyrir breyttu neyslumynstri í þágu náttúru og mannréttinda.Segir þar m.a. :

„Raunverulegur kostnaður neysluvara kemur ekki fram í verði. Neysluvarningur er oft á tíðum framleiddur á vafasaman hátt með tilliti til umhverfisáhrifa sem og velferð þeirra sem komu að framleiðslu varningsins. Oft er verið að misnota vinnuafl og auðlindir, þannig er hluti af kostnaði þessarar neyslu taumlaus mannréttindabrot og óafturkræfur skaði á náttúru. Hið kapítalíska hagkerfi tekur aðeins tillit til sölu og gróða, en ekki varðveislu náttúru og auðlinda fyrir komandi kynslóðir eða mannréttinda.

Til þess að breyta þessu neyslumynstri verður endurnýting og vörur framleiddar í ábyrgri framleiðslu að vera aðgengilegar almenningi og einnig aðlaðandi og hagkvæmur kostur. Þar gæti ríkið komið inn í. Ríkisstjórnin ætti að leggja sitt á vogarskálarnar og styðja við framleiðslu sem stuðlar að sjálfbærri neyslu í stað einnota neyslumynsturs, t.d. framleiðsla sem hefur það markmið að gera við og deila neysluvörum í stað þess að selja nýjar. Einnig er nauðsynlegt að lækka álögur á umhverfisvænar og mannréttindavottaðar vörur.“

Að lokum var ályktað um kjarasamninga og gegn hernaðaræfingum á Íslandi.

DEILA