100.000 gestir á ÍSLENSKUR LANDBÚNAÐUR 2018

Formaður Bændasamtakanna opnar sýninguna. Mynd: Bændablaðið.

Um hundrað þúsund gestir komu í heimsókn á sýninguna Íslenskur landbúnaður 2018 er haldin var í Laugardalshöll um helgina. Slík aðsókn hefur vart sést á sýningu á Íslandi. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar framkvæmdastjóra sýningarinnar voru undirtektir afar jákvæðar: “Það var einstaklega ánægjulegt  hversu duglegir bændur voru að heimsækja sýninguna. Fóru jafnvel í hópferðir frá fjarlægum landshlutum og flugu suður. Margir pöntuðu gistingu í Bændahöllinni og heimsóttu sýninguna oftar en einu sinni. Tjáðu bændur undirrituðum að það hefði verið gleðilegt að sjá hversu margir borgarbúar hefðu líka komið í heimsókn til að líta augum hina fjölbreyttu sýningarbása er endurspegluðu þann þrótt og fjölbreytileika er einkennir nútíma landbúnað. Þá undruðust gestir hversu tæknivæddur nútíma landbúnaður er að verða og er orðinn að mörgu leyti. Vegur slík sýning á móti oft einhliða fréttaflutninga af sveitum og bændastéttinni. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Kínaveldis kom í heimsókn á sýninguna og hreifst svo mjög af hinum hreinu afurðum er hann smakkaði að hann bauð einum ostagerðarmanninum umsvifalaust í heimsókn til Kína. Þessi sýning færir okkur heim sanninn um að við eigum einstakt land er fóstrar hrein og ómenguð matvæli. Við búum í landi hreinleika og fegurðar og það eru bændurnir sem eru gæslumenn landsins.” Sagði Ólafur að lokum.

DEILA