Ýmis mál á dagskrá hjá bæjarráði Vesturbyggðar

Á bæjarráðsfundi í Vesturbyggð þann 11. september var lagt fram bréf ásamt fylgiskjölum dags. 31. ágúst sl. frá Sýslumanninum á Vestfjörðum með beiðni um umsögn frá Petrínu Sigrúnu Helgadóttur vegna umsóknar um rekstrarleyfi að reka gististað í flokki II að Brunnum 18, Patreksfirði.

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við veitingu rekstrarleyfis. Jákvæð umsögn Vesturbyggðar er þó skilyrt þannig að rekstraraðili sýni fram á að hann hafi samið við Gámaþjónustuna ehf. eða aðra sambærilega aðila um förgun á sorpi sem fellur til við starfsemi gististaðarins og gert sé ráð fyrir viðeigandi fjölda bílastæða.

Þá var lagt fram erindi frá Odda hf. með ósk um framlengingu á samningi milli Odda hf., Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar sem fólst í akstri almenningsamgangna milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar, ein ferð á dag, alla virka daga.
Mætt til viðræðna fyir hönd Odda hf. er Skjöldur Pálmason fyrir hönd Tálknafjarðahrepps er mætt Bjarnveig Guðbrandsdóttir.
Fallist er á framlengingu til tveggja mánaða, skoðað verði með að gera samning til lengri tíma.

Bæjarskrifstofur Vesturbyggðar eru lokaðar frá 12. september til 14. september vegna þess að ráðhúsið flytur í nýtt húsnæði að Aðalstræti 75 á Patreksfirði. Þar opna skrifstofurnar aftur þann 17. september.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA