Yfir 900 manns mættu á Gamanmyndahátíð Flateyrar

Villi Vísindamaður var rosalegur á Gamanmyndahátið Flateyrar.

Það er töluvert fyndið að vera á Flateyri. Ekki bara af því eiginkonur Baggalúts eiga þar hús og Tobba Marinós fílar ærslabelginn heldur líka af því að þar er mekka gamanmynda á Íslandi. Um helgina var nefnilega hin árlega Gamanmyndahátíð Flateyrar haldin og þaðan fer víst enginn ógrátandi af hlátri. Nema mögulega gullfiskarnir sem Eyþór Jóvinsson setti í baðkar og mamma hans sturtaði út í sjó í morgun. Enn leikur á huldu hvort þeir skili sér með eldislöxum upp í árnar en eitt er víst að Gamanmyndahátíðin var sú fjölmennasta til þessa með meira en 900 gestum á viðburðum hátíðarinnar.

Viðburðirnir voru mjög fjölbreyttir og að mestu leyti skemmtilegir en til dæmis var barnasýning og Villi Vísindamaður var með sýningu sem var mjög vel sótt af yngri kynslóðunum og fylgdarfólki þeirra. Alls voru sýndar þrjátíu íslenskar gamanmyndir og þar af voru 12 nýjar stuttmyndir frumsýndar. Veitt voru verðlaun fyrir fyndnustu stuttmyndina að mati áhorfenda og var myndin Pabbahelgi eftir Tómas Víkingsson kosin fyndnasta gamanmynd ársins. Bjarnarblús eftir Loga Sigursveinsson lenti svo í öðru sæti.

Það þurfti engar fjarstýringar til að starta þessum frábæru myndum um helgina heldur einungis hugarorkuna og gleði en á laugardagskvöldið var heiðurssýning hátíðarinnar sýnd í Tankinum. Þó engin viti í dag hvar Sódóma er, þá var stórmyndin Sódóma Reykjavík samt sýnd fyrir troðfullum sal. Að sýningu lokinni afhenti Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Óskari Jónassyni viðurkenningu fyrir framlag sitt til gamanmyndagerðar á Íslandi.

Eins og einhver skrifaði á BB í fyrra þá er nokkuð ljóst að Gamanmyndahátíð Flateyrar er komin til að vera og við hvetjum lesendur til að bóka gistingu sem fyrst eða kaupa hús á Vestfjörðum svo þeir fái pláss á næstu gamanmyndahátíð eftir ár.

Meðfylgjandi myndir tók Arjan Wilmsen

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA